Vill nýta gervigreind í greiningu á gullhúðun

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vinnur nú að fyrstu aðgerðaráætlun Íslands í gervigreindarmálum. Hluti af aðgerðaráætluninni snýst um að auka hagkvæmni og tækifæri í rekstri ríkisins og tekur gullhúðun EES-reglna sérstaklega fyrir.

Ráðherra segir gervigreindina geta kannað hvar löggjafarvaldið hefur gengið lengra en nauðsynlegt er í tengslum við EES-reglugerðir.

„Með þeirri tækni getum við eflaust líka séð mynstur og ákvarðanir sem færu fram hjá hefðbundinni greiningu en líka gert þetta án tilkostnaðar fjölda vinnustunda hjá sérfræðingum í ráðuneyti. Við erum farin af stað með þetta í þeim EES-reglugerðum sem heyra undir mitt ráðuneyti og byrjum á því sem snýr að umhverfi fjarskiptafyrirtækja,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í samtali við mbl.is.

Mikilvægt að tryggja samkeppnisvænt umhverfi

„Það er gríðarlega mikilvægt að við tryggjum atvinnulífinu samkeppnishæft umhverfi og við séum ekki að ganga fram með þeim hætti að reglur hér séu meira íþyngjandi nema sérstaklega sé þá tekin ákvörðun um það. En það sé ekki gert með þeim hætti að það sé falið í heimi innleiðingar á EES-reglum, enda skiptir það fyrirtæki öllu máli að umhverfi hér sé sambærilegt því sem gengur og gerist í öðrum löndum.“

Þá segist Áslaug binda vonir við það að tæknin muni ekki einungis sýna fram á hvar væri þörf á afhúðun heldur einnig hvar gullhúðunin hafi mest íþyngjandi áhrif.

Bandaríkin stefni að því að spara 58 þúsund vinnustundir 

„Við erum að horfa til fyrirmynda annars staðar, Bandaríkin hafa gengið fram með góðu fordæmi, að beita gervigreind í að finna úrelt lög og íþyngjandi eða þau sem eru mismunandi milli ríkja og eru að setja fram markmið um að spara ríkinu held ég 58 þúsund vinnustundir á næsta áratug, bara með þeirri tækni.

Þetta er bara ein af mörgum aðgerðum sem ég mun kynna nú í haust. Ég vona síðan ef þetta tekst vel til að önnur ráðuneyti geti nýtt sér þetta. Enda er mjög mikilvægt í þessari umræðu um gullhúðun að hún snúist ekki eingöngu um þau frumvörp sem við erum að koma með í dag heldur að við skoðum allar þær lagareglur sem gilda nú þegar,“ segir Áslaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert