Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og formaður efnahagssviðs, segir vonbrigði að þróunin hafi ekki gefið tilefni til þess að lækka vexti.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25% og hafa stýrivextirnir haldist óbreyttir í heilt ár.
„Ákvörðun nefndarinnar er í sjálfu sér skiljanleg út frá þeim gögnum sem liggja fyrir enda voru nánast allir greiningaraðilar að búast við því að vextir yrðu óbreyttir. Þó svo að það hafi verið umræða um kólnun í hagkerfinu að undanförnu þá hefur hún eitthvað látið bíða eftir sér. Hún hefur kannski ekki verið jafnmikil og margir áttu von á,“ segir Anna Hrefna í samtali við mbl.is.
Hún segir að verðbólguvæntingar hafi ekki lækkað á milli funda og verðbólgan ekki heldur. Það hefði því verið erfitt fyrir nefndina að rökstyðja lækkun miðað við þá þróun sem hafi verið á milli funda.
Þið senduð út frá ykkur tilkynningu í gær ásamt ASÍ þar sem þið kölluðu eftir ákveðinni framsýni frá peningastefnunefndinni. Það má túlka þessi orð þannig að þið viljið væntanlega fá einhvera ákveðna leiðsögn um það hvað þurfi til svo vaxtalækkunarferli geti hafist?
„Nefndin er auðvitað framsýn í sínum ákvörðunum en það sem við höfum kannski helst áhyggjur af er tímasetningin á vaxtalækkunarferlinu af því að auðvitað viljum við ekki heldur að það fari of seint af stað þannig að það komi niður á fjárfestingu á mikilvægum innviðum, til dæmis uppbyggingu íbúðarhúsnæðis,“ segir Anna.
Hvað er það sem er að halda þessari verðbólgu svona þrálátri. Eru Samtök atvinnulífsins með einhverjar ráðleggingar hvað þyrfti að gera til þess að verðbólgan byrji að hjaðna hraðar en spáð er núna?
„Eitt af stóru áhyggjuefnunum er verðbólgan mælist á mjög breiðum grunni. Það eru fjölmargir þættir sem leika þarna hlutverk. Fasteignamarkaðurinn er stór þáttur í þessu og það auðvitað ekki hægt að sjá fyrir sér atburðina í Grindavík eða áhrifin sem þeir myndu hafa á fasteignamarkaðinn. Við höfðum áður en það raungerðist bent á að það væri útlit fyrir mögulegan framboðsskort á íbúðamarkaði,“ segir Anna Hrefna.
Hún segist ekki viss um að Seðlabankinn sé að draga alveg réttar ályktanir um þann markað. Það sé talað talað um að það sé mikill kraftur á byggingarmarkaði en það sé ekki endilega uppbygging íbúðarhúsnæðis.
„Nægt lóðarframboð er auðvitað grundvallar forsenda þess að hægt sé að byggja meira og í takt við breytingar í eftirspurn. Við höfum heyrt það frá þeim sem þekkja til á þeim markaði að lóðaskortur sé svo sannarlega að hafa neikvæð áhrif á framboðsaukningu á markaðnum.“