Ástæða þess að ekki gýs enn

Ein ástæða þess að ekki hefur enn gosið á Sundhnúkagígaröðinni, þrátt fyrir að rúmmál kviku undir Svartsengi sé meira en var áætlað fyrir síðasta gos, er að í hverju eldgosi og kvikuhlaupi vex lárétti þrýstingurinn sem heldur að kvikuhólfinu. Þannig þarf alltaf meiri þrýsting til að yfirvinna spennuna í jarðskorpunni. 

Þetta segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í Dagmálum í dag. 

„Það er margt í þessari atburðarás sem við getum lært af. Til dæmis þetta að það er ekki óalgengt að þrýstingurinn í þessum kvikugeymi fari yfir það sem hæst var áður. Þannig að þessi brotmörk, þegar geymirinn brotnar og tæmir sig, þau eru breytileg og þau hækka með tímanum,“ segir Páll. 

Þetta gerðist 20 sinnum í Kröflu og er búið að gerast sjö sinnum í Svartsengi. 

„Ef einhver regla er á hlutunum, þá er þetta reglan. Það rís yfirleitt upp í fyrri hæð, fram að þeim tíma erum við með svokallað öruggt tímabil. Eftir það erum við með tímabil óvissu. Þetta óvissutímabil getur verið mjög mislangt,“ segir Páll.

Til að byrja með getur það verið stutt útskýrir Páll og svo getur það lengst eftir því sem atburðirnir verða fleiri. 

Á grafinu sést hvernig kvikusöfnun í Svartsengi verður alltaf meiri …
Á grafinu sést hvernig kvikusöfnun í Svartsengi verður alltaf meiri með hverju eldgosi og kvikuhlaupi. Graf/Veðurstofa Íslands

Enginn þorað að lýsa yfir endalokum Kröfluelda

Síðasta eldgos í Kröflueldum stóð yfir í fjórtán daga í september árið 1984. 

„Við sáum að aðflæði kviku minnkaði þegar leið á atburðarásina. En það var líka skrikkjótt. Það var ekki jafnt og þétt. Stundum var talsvert aðflæði en stundum nánast ekki neitt, og gat verið það talsvert lengi,“ segir Páll. 

„Það sem olli því að það er ekki enn þá búið að lýsa yfir endalokum Kröfluelda var það að staðan í lokin var hærri heldur en hún var nokkurn tíman áður. Þar að segja kvikuhólfið hætti að fá efni, en í hástöðu. Þannig að þrýstingurinn í því var hærri en nokkru sinni fyrr. Þar hætti atburðarásin.

Það var aldrei hægt að útiloka alveg að það yrði einhverskonar jarðfræðilegt slys og það myndi gjósa upp úr þessu hólfi. Því það var með nægan þrýsting til þess, en aðhaldið var greinilega sterkara. Landrisið hætti í raun ekki fyrr en 1989, 15 árum eftir að það byrjaði. Enn þá hefur enginn þorað að lýsa yfir því að það gjósi ekki í Kröflu úr þessu kvikuhólfi. Þannig að menn gætu þurft að bíða svolítið eftir því að það verði lýst yfir endalokum eldanna frá Svartsengi. “

Viðtalið við Pál má horfa á í heild sinni í Dag­mál­um í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka