Einstaka lekar hér og þar

Tenging Suðuræðar 2 gekk samkvæmt áætlun.
Tenging Suðuræðar 2 gekk samkvæmt áætlun. Ljósmynd/Veitur

Einstaka lekar hafa komið upp í dreifikerfinu hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu eftir að vatni var aftur hleypt á þau svæði sem höfðu verið heitavatnslaus vegna tengingar á Suðuræð 2. 

„Þetta hefur gengið vel og þrýstingur var kominn á á þeim tíma sem við vonuðumst eftir þannig þessi aðgerð var bara algjörlega á áætlun,“ segir Rún Ingvarsdóttir, samskiptastjóri Veitna, í samtali við mbl.is spurð hvernig gengið að hafi að ljúka verkinu.

Lekarnir viðbúnir

Þá segir hún að nokkrir lekar hafi komið upp í kerfinu en að það hafi verið viðbúið.

„Einstaka lekar hafa komið upp á afmörkuðum litlum svæðum og það hefur þurft að taka vatnið af aftur á meðan viðgerð stendur yfir. Það eru bara ýmsir staðir, kannski ein gata hér og þar eða eitt hús sem lenda í því,“ segir Rún og bætir við:

„Alltaf þegar vatni er hleypt á stór lagnakerfi aftur má búast við nokkrum lekum í dreifikerfinu.“

Þá segir Rún að veitum hafi ekki borist tilkynningar um annarskonar tjón í tengslum við framkvæmdina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert