Hofsjökull er líka að vakna til lífsins, eða þar má að minnsta kosti greina líf sem kann ekki að hafa verið þar í mörg þúsund ár.
„Hofsjökull er ein af þeim eldstöðvum sem hafa ekki sýnt nein sérstök tilþrif í langan tíma. Hann hefur hins vegar allt til að bera til að vera tekinn alvarlega. Það er stór askja undir jöklinum, keilulaga eldfjall, og allt þar í kring bendir til þess að þarna sé eldfjall sem getur látið að sér kveða. Hins vegar er ekkert í sögu síðustu 10 þúsund ára sem bendir til þess að neitt sérstakt hafi gengið á í þessu eldfjalli,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í Dagmálum í dag.
Örfá og örsmá eldgos hafa orðið þar á síðustu 10 þúsund árum, það sýna hraun sem koma undan jöklinum. Út frá jöklinum eru tilkomumiklir sprungusveimar, bæði til norðnorðvesturs og til vestsuðvesturs.
Fylgst hefur verið vel með Hofsjökli síðan árið 1975 þegar fyrstu jarðskjálftamælunum var komið fyrir þar. Aftur á móti komu eiginlega engir skjálftar fram á kerfinu fyrr en árið 2021. Það staðfestir, að sögn Páls, að skjálftarnir komi ekki fram bara vegna þess að mælitækin nú á 21. öldinni séu betri. Hann segir rannsóknir síðustu ára við Hofsjökul benda til þess að mjög langt sé síðan einhverjar hreyfingar og hamfarir hafi verið á þessu svæði – 10-15 þúsund ár.
„En þegar koma fram svona lífsmörk verða menn að taka það alvarlega, alla vega til að byrja með, og það er full ástæða til að fylgjast vel með þessari eldstöð,“ segir Páll.
„Nú stöndum við frammi fyrir þessu með Hofsjökul. Hann er eldfjall sem þarf að taka mark á,“ segir Páll.
Viðtalið við Pál má horfa á í heild sinni í Dagmálum í dag og lesa í Morgunblaðinu.