Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir óvenjulega jarðskjálftavirkni í Ljósufjallakerfinu á Snæfellsnesi, ekki boða neinar stórar hamfarir. Eldstöðinni megi þó ekki gleyma og full ástæða sé til að fylgjast með.
„Þetta sem er gangi þarna – það eru engar hamfarir, þetta eru litlir skjálftar. Og þetta boðar ekki heldur neinar hamfarir, þessi litlu snyrtilegu gos þarna á þessu eldstöðvakerfi eru ekki líkleg til að valda neinu verulegu tjóni, jafnvel þó að gos verði. Þetta yrðu túristagos, falleg á að horfa, ef maður er hæfilega langt frá þeim. Og standa hæfilega lengi,“ segir hann og bætir við: „En þetta er athyglisvert og engin ástæða til að leiða þetta hjá sér, það er sem sé full ástæða til að taka eftir þessu og fylgjast með.“
Þá segir hann að líf í þessu eldstöðvakerfi ekki gefa ástæðu til þess að vakta Snæfellsjökul betur. Þar sé nú þegar mælikerfi sem mun greina ef einhverjar breytingar verða í hegðun eldstöðvarinnar. Nægur tími muni gefast til að bregðast við.
Viðtalið í Pál má horfa á í heild sinni í Dagmálum í dag og lesa í Morgunblaðinu.