Færri dvelja yfir nótt í Grindavík

Dvalið var í 22 húsum í Grindavík í nótt. Í …
Dvalið var í 22 húsum í Grindavík í nótt. Í síðustu viku var dvalið í 34 húsum yfir nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Dvalið var í 22 húsum í Grindavík síðastliðna nótt að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Í tilkynningu í síðustu viku sagði að þá hefðu íbúar dvalið í 34 húsum í bænum. 

Því hefur þeim fækkað sem kjósa að sofa í Grindavík.

Lögreglustjórinn hefur ítrekað varað við því að dvelja næturlangt í Grindavík og kveðst í tilkynningu ekki geta ábyrgst öryggi þeirra sem þar dvelja yfir nótt. 

Hættumat framlengt

Hættumat fyrir Grindavík er óbreytt frá því í síðustu viku og gildir það nú til 27. ágúst. 

Áfram eru miklar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni. Skjálftavirkni vex dag frá degi.

Skýr merki um að þrýstingur er að aukast á svæðinu. Þróun í kvikusöfnun og landrisi hefur verið óbreytt síðustu daga. Rúmmál kviku undir Svartsengi er meira en fyrir síðustu eldgos.

Tilefni er til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík. Þannig er möguleiki á að hraun sem kæmi upp úr gosopi norðan varnargarða ofan bæjarins geti leitað ofan í sprungukerfi sunnan Hagafells og leitt hraunstraum inn fyrir bæjarmörkin.

Þá er ekki hægt að útiloka að gossprunga geti opnast inn í Grindavík.

Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert