Fagnar því að Miklabraut fari í göng

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, á fundinum í dag.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, á fundinum í dag. mbl.is/Eyþór

Einar Þorsteinsson borgarstjóri telur uppfærðan samgöngusáttmála vera mun raunhæfari og skynsamlegri en áður. Hann kveðst verulega ánægður með þá breytingu að Miklabraut verði að göngum en ekki sett í stokk. 

Einar ræddi við blaðamann að loknum fundi í Salnum í Kópavogi í dag þar sem uppfærður samgöngusáttmáli var kynntur. 

Hefurðu áhyggjur af því að þegar horft verður til baka eftir nokkur ár, að það sjáist enn meiri hækkanir? Eru þetta lokatölurnar?

„Ég held að það stjórnkerfi sem verið er að byggja utan um samgöngusáttmálann núna sé mun skilvirkara. Það er kveðið á um kostnaðaraðhald í þessum áætlunum. Auðvitað vitum við samt að samgönguvísitalan svokallaða, um kostnað í verklegum framkvæmdum sem tengjast samgöngumannvirkjum, hefur hækkað um tugi prósenta á undanförnum árum. 

Eftir því sem Vegagerðin og Betri samgöngur og þeir sem hanna þessi mannvirki og undirbúa þau komast lengra inn í hönnunarferlið þá birtist kostnaður sem var ekki fyrirséður áður. Auðvitað hefur maður áhyggjur af kostnaðinum við þetta verkefni og ákveðin vonbrigði að sjá hvernig þetta hefur þróast, eins og með brúnna Öldu. En ég tel að núna eftir alla þessa yfirlegu og endurmótun á verkefninu, breytt stjórnskipulag þess, sé meiri vissa í því hvernig við sjáum framhaldið þróast,“ segir Einar.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri kveðst ánægður með að Miklabraut fari í …
Einar Þorsteinsson borgarstjóri kveðst ánægður með að Miklabraut fari í göng en ekki stokk. Samset mynd/Kristinn Magnússon/Eggert Jóhannesson

Treysta því að áætlanir standist

Hann bendir á að auðvitað sé einhver óvissa þegar kemur að opinberum útboðum og að markaðurinn hafi mikið áhrifavald í þessum efnum.

„Þetta er kostnaðarsamt verkefni, 310 milljarðar. Ábatagreiningin sýnir að það eru 1.140 milljarðar ábati af henni. Þegar við erum hér, stjórnmálamenn að taka ákvörðun, þá verðum viðað byggja þetta á gögnum. Ábatastuðullinn, hvað þetta verkefni snertir, er með því hæsta sem við höfum séð. Sundabrautin er á pari við þetta og gríðarlega ábatasöm framkvæmd. Þannig ég held að við höldum áfram í því trausti að áætlanir standist,“ segir Einar.

Hefðirðu viljað lengri tíma í endurskoðun til að meta hvort þetta sé rétt skref?

Nú hafa viðræður um uppfærslu á þessum sáttmála hafa staðið yfir í á annað ár. Ég hef frekar verið á þeirri línu að það hafi tekið of langan tíma að uppfæra sáttmálann af því að íbúum liggur á að fá hér samgönguúrbætur. Bæði hvað varðar stofnvegina, hvað varðar almenningssamgöngur, hjólastíga, umferðaröryggi, ljósastýringu. Það er mikil eftirspurn eftir betra samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Einar.

Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir og Einar Þorsteinsson …
Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir og Einar Þorsteinsson í Salnum í Kópavogi í dag. mbl.is/Eyþór

Skynsamlegt að teygja úr sáttmálanum

Upphaflega átti sáttmálinn að ná til ársins 2033 en hefur hann nú verið framlengdur til ársins 2040. Einar telur það vera skynsamlega nálgun.

„Það er verið að dreifa framkvæmdunum á aðeins lengra tímabil. Það er skynsamlegt bæði upp flæði á meðan framkvæmdum stendur, þannig að við lokum ekki öllu í einu, og líka upp á fjárfestingarkostnaðinn sem er umtalsverður og óútfærður seinni hluta áætlunarinnar, að hluta til. Ég held að þetta sé raunhæfari, skynsamlegri, jarðbundnari og öflugri sáttmáli heldur en hann var fyrir og ég er ánægður með hann,“ segir Einar.

Ertu sáttur með þær breytingar sem verða í Reykjavík?

„Nú er ég hluti af hópi sex forsvarsmanna sveitarfélaga hérna á höfuðborgarsvæðinu. Öll höfum við okkar óskir og drauma um hvað á að fara fyrst í framkvæmdir. Niðurstaðan er bara mjög ásættanleg fyrir okkur öll. Stóru tíðindin fyrir Reykjavík er að Miklabrautin fer í göng en ekki stokk. Það er algjört lykilatriði að svo verði því framkvæmdatíminn á stokki og áhrifin á umferð í Reykjavík yrði gríðarleg á framkvæmdatímanum. Hún tæki nokkur ár í framkvæmd og á meðan yrði allt stopp. Ég hef haft miklar áhyggjur af þessu og gangnalausn sem ég hef talað fyrir lengi er nú orðin niðurstaðan. Það er gríðarlega jákvætt,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert