Fólk láti vita af lekum

Framkvæmdirnar vegna Suðuræðar 2.
Framkvæmdirnar vegna Suðuræðar 2. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkrir lekar hafa komið upp í dag og kvöld á svæðinu þar sem heitavatnslaust var fyrr í vikunni, og hvetja Veitur þá sem hafa orðið fyrir slíku að hringja í neyðarsíma þeirra.

Í tilkynningu sem Veitur birtu á heimasíðu sinni kl. 22.40 segir að þegar vatni sé hleypt aftur á viðamikið lagnakerfi geti komið upp lekar í dreifikerfinu.

„Í dag og kvöld hafa komið upp nokkrir lekar og hafa íbúar á þeim svæðum orðið fyrir því að það er lokað fyrir heita vatnið til að hægt sé að stöðva lekann. Svæðin eru þó lítil og afmörkuð við einstaka götur.“

Í tilkynningunni kemur fram að Veitur séu að vinna í viðgerðum, en það tekur einhvern tíma þar til því lýkur.

„Við viljum vita af öllum lekum sem verða í kerfinu okkar og mikilvægt að hringja í neyðarsímann okkar 516 6161.“

Þá benda Veitur einnig á spurt og svarað um bilanir á heimasíðu Veitna, veitur.is

mbl.is bárust ábendingar fyrr í kvöld frá íbúum innan svæðisins um að sums staðar hefði ekki verið neinn þrýstingur á heita vatninu og ofnar enn kaldir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert