Gæti vel verið að áætlaður kostnaður hækki

Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi við mbl.is að fundi loknum, þar …
Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi við mbl.is að fundi loknum, þar sem uppfærður samgöngusáttmáli var kynntur. mbl.is/Eyþór

Það gæti vel verið áætlaður kostnaður við samgöngusáttmálann, sem nú er 311 milljarðar, muni hækka. Áður hafði verið gert ráð fyr­ir að kostnaður­inn væri um 170 millj­arðar.

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is.

„Eins og kemur fram að verkefnin sem eru hvað lengst fram í tímann, þau munu örugglega vera dýrari en ef við horfum á þau í dag. Við þekkjum það að samgönguvísitala hefur hækkað um 30-35% á síðastliðnum fimm árum. Það er hluti af þessari hækkun,“ segir Sigurður.

Sum verkefni breyst

Hann segir þó að það sem útskýri að miklu leyti af hverju kostnaðaráætlunin hefur hækkað sé umbreyting einstakra verkefni.

Nefnir hann í því samhengi til dæmis að Miklabraut fer í göng en ekki stokk, Sæbraut í stokk frekar en mislæg gatnamót og annað slíkt.

Verður fjár­fest fyr­ir 14 millj­arða ár­lega til árs­ins 2029 og frá ár­inu 2030 fyr­ir 19 millj­arða til árs­ins 2040. Gild­is­tími sátt­mál­ans, og þar með fram­kvæmda­tíma­bil, hef­ur verið lengt um sjö ár, en upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir að klára verk­efnið árið 2033.

Virði Keldnalands búið að þrefaldast

Sigurði þykir eðlilegt að samgöngusáttmálinn verði tekinn til endurmótunar með reglubundnum hætti og nefnir til dæmis á fimm ára fresti.

„Mér kæmi ekkert á óvart ef í þeim fasa þá muni jafnvel einhver verkefni sem við erum búin að móta núna jafnvel breytast í að stækka eða jafnvel að það bætist við verkefni.“

Þannig kostnaður gæti hækkað í framtíðinni?

„Það gæti vel verið en á móti getum við líka sagt að við lögðum til Keldnaland [árið 2019]. Við mátum það á 15 milljarða sem núna er komið í fimmtíu. Það er búið að meira en þrefaldast,“ segir Sigurður en ríkið mun selja Keldnaland til þess að fjármagna að hluta til sáttmálann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert