Gamlar eldstöðvar vakna til lífsins

Flogið yfir Ljósufjöll á Snæfellsnesi í vetrarbúningi. Virknin á Snæfellsnesi …
Flogið yfir Ljósufjöll á Snæfellsnesi í vetrarbúningi. Virknin á Snæfellsnesi er þó ekki bundin við Ljósufjöll, þó eldstöðvakerfið sé kennt við fjallgarðinn. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru ekki stórir skjálftar og ekki margir skjálftar, en áberandi. Það er sum sé eitthvað að gerast þarna sem ekki hefur gerst áður. Og það er mergur málsins,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í Dagmálum í dag.

Smáskjálftahrina reið yfir í Ljósufjallakerfinu á Snæfellsnesi í byrjun ágúst og hafa nú mælst 70 skjálftar á þessu ári. Er þessi hrina breyting í hegðun eldstöðvakerfisins en fyrir árið 2021 mældust þar fáir skjálftar. Í Hofsjökli hefur einnig skolfið í ár og hefur gert síðustu tvö ár, en þar byrjuðu skjálftar að mælast árið 2022. Fyrir það hafði lítið lífsmark verið með eldstöðinni.

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, er …
Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, er gestur í Dagmálum í dag. mbl.is/Hallur Már

Rólegt fram að Kröflueldum

Páll segir þetta nýja lífsmark með eldstöðvunum vera merki um að eitthvað sé á seyði, þó hætta á hamförum sé ekki yfirvofandi. Lífsmarkið í þessum tveimur eldstöðvum getur virst tilviljanakennt í fyrstu að sögn Páls, en séu þau sett í samhengi við annað bendi ýmislegt til þess að kvikuvirkni undir landinu komi í hrinum.

Hann bendir að á um miðja síðustu öld hafi verið rólegt tímabil. Frá Kröflueldunum, sem hófust 1975, hafi hvert gosið rekið annað. 

„Við erum búin að sjá nokkur Heklugos, Hekla hefur gosið nú tíðar en hún hefur gert á sögulegum tíma. Við höfum séð gos undir Vatnajökli. Við erum búin að sjá stórt hraungos frá Bárðarbungu og hefur komið í ljós að er mikilvirkasta eldstöð landsins. Grímsvötn hafa minnt á sig annað slagið, með tiltölulega stóru gosi árið 2011.Við erum að sjá virkni í mörgum eldstöðvum sem voru áður tiltölulega rólegar,“ segir Páll.

Viðtalið við Pál má horfa á í heild sinni í Dagmálum í dag og lesa í Morgunblaðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka