Handrukkarar handteknir eftir átök í heimahúsi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöld og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír voru handteknir eftir að tilkynnt var um átök í heimahúsi. Í ljós kom að þessir þrír aðilar voru að rukka inn skuld með tilheyrandi látum og ofbeldi. Árásarþoli var ekki talinn mikið slasaður en var þó fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til frekari aðhlynningar.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Dagbókin nær til verkefna lögreglu á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Tilkynnt var um umferðarslys. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að ökumaðurinn var ölvaður. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna málsins.

Lögreglunni barst tilkynning um hugsanleg hópslagsmál við Mjóddina. Þegar lögregla kom á vettvang var allt rólegt og ekkert var aðhafst frekar í málinu.

Lögregla aðstoðaði starfsmann hótels við að vísa ölvuðum gesti í burtu. Eftir að eigur gestsins höfðu verið sóttar inn í herbergi þá gekk hann í burtu.

Lögregla hafði afskipti af bifreið í akstri. Tveir voru í bílnum og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefni. Einnig vaknaði grunur um að bifreiðin væri stolin. Tveir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu vegna gruns um þjófnað á bifreiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert