Höfuðborgarsvæðið „að komast á blað“

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar fagnar nýjum samgöngusáttmála og segir að með honum sé höfuðborgarsvæðið „almennilega að komast á blað“. Hún gleðst sérstaklega yfir fyrirhugaðri samgöngubót á Reykjarnesbraut.

„Þetta er í rauninni bara mjög stór stund að við séum að klára þetta. Loksins er þetta svæði, höfuðborgarsvæðið, að fá einhverja framtíðaráætlun í samgöngumálum. Við vitum það öll sem vinnum hérna og búum að það er ekki vanþörf á. Loksins er verið að horfa til lengri framtíðar til að laga ástandið hérna,“ sagði Rósa í samtali við blaðamann mbl.is að loknum kynningarfundi á nýjum samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag.

„Við vitum hvað eru margir tugir milljarða settir á ári hverju í samgöngur, það eru kannski á fimmta tug milljarða settir í samgöngur bara heilt yfir á landinu af ríkisins hálfu, og nú erum við almennilega að komast á blað. Þetta er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir okkur öll,“ segir Rósa.

Um 20 milljarðar settir í samgöngubótina

Þá gleðst hún sérstaklega yfir fyrirhugaðri samgöngubót á Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð en hún segir að ráðgert sé að um 20 milljarðar renni í það verkefni.

„Þar hafa verið gerðar raunhæfari áætlanir og raunverulega verið að setja fjármuni til þess að leysa vandann á Reykjanesbraut, frá Lækjargötu að Álftanesvegi. [...] Þar fara um 50 þúsund bílar á dag í gegnum bæinn okkar og það er það sem ég hef sérstaklega verið að berjast fyrir í þessum sáttmála, að það verði og frestist ekki um of og ég er mjög ánægð að strax á næsta ári fara fjármunir í undirbúning og hönnun á þeirri samgöngubót,“ segir Rósa.

Ítarlegri greining að baki sáttmálanum

Nokkuð hefur verið rætt um kostnað við sáttmálann en ráðgert er að hann verði 311 milljarðar. Um er að ræða töluverða hækkun frá upprunnalega sáttmálanum sem kynntur var 2019 en þá var áætlaður kostnaður 170 milljarðar.

Rósa segir að þetta skýrist af því að ítarlegri greining liggi að baki uppfærðum sáttmála.

„Það sem hefur gerst á þessum tíma og í þessari uppfærslu, og þess vegna hefur þetta tekið lengri tíma en til stóð, er að það er verið að kostnaðargreina þetta allt miklu betur og ítarlegar en var fyrir fimm árum. Nú er í rauninni verið að leggja fram aðgerðaáætlun og það er verið að greina verkefnið miklu betur og lengja í því og rauninni bara að búa til raunhæfari áætlun,“ segir Rósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert