Höfum tapað 3,5 mánuðum af hjöðnun

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi peningastefnunefndar í dag.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi peningastefnunefndar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhrif af kjarasamningum fyrr á þessu ári og af aðgerðum ríkisins vegna náttúruhamfaranna í Grindavík hafa verið meiri en spáð var. Þetta hefur leitt til þess að verðbólga hjaðnar nú hægar en áður hafði verið spáð.

Þetta segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. Hann segir að frá síðustu vaxtaákvörðun hafi í raun tapast ársfjórðungur af hjöðnun verðbólgunnar og því lengist það tímabil sem það taki að ná verðbólgunni niður.

Peningastefnunefnd ákvað í dag að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 9,25% og hefur vaxtastigið nú haldist óbreytt í eitt ár.

Grindavík og kjarasamningar

Á fundinum var Ásgeir spurður út í hvort hann sæi frekar fyrir sér að farið yrði í hægari lækkanir eða stærri skref þegar aðstæður leyfðu.

Ásgeir vísaði í svari sínu í orð nefndarinnar frá í maí þar sem talað var um að helstu áhrifaþættir væru nýgerðir kjarasamningar þá og samhangandi aðgerðir í ríkisfjármálum, auk aðgerða ríkisins vegna Grindavíkur. Segir Ásgeir að þar hafi ríkið varið um 70 milljörðum í húsnæðiskaup og það svo leitt til aukinnar eftirspurnar á öðrum svæðum eftir húsnæði og þar með hækkandi fasteignaverði.

„Svo hefur komið í ljós að áhrifin af þessu tvennu eru miklu meiri en við höfðum vænst.“ Nefnir hann að fasteignamarkaðurinn hafi verið að taka mikið við sér. Þá segir Ásgeir að áhrif af kjarasamningum á eftirspurn hafi verið meiri en gert hafi verið ráð fyrir.

Aðhaldið nægjanlegt en ársfjórðungur tapaðist

Ásgeir tekur hins vegar fram að bankinn telji þessi áhrif að einhverju leyti vera einskiptismál sem tefji fyrir þeirri aðlögun sem er hafin varðandi hjöðnun verðbólgunnar, frekar en að um langtímaáhrif sé að ræða. „Að við höfum tapað allavega 3,5 mánuðum af þessari hjöðnun, en við teljum að hún sé að halda áfram og muni halda áfram.“

Segir Ásgeir nefndina einnig telja núverandi aðhaldsstig, sem er um 4% raunvextir, vera nægjanlegt til þess að ná fram þessari aðlögun.

Bæði Ásgeir og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, sögðu nefndina frekar horfa til gagna á hverjum tímapunkti við vaxtaákvörðun, en að setja upp langtímaplan. Ásgeir sagði þó að lítil ástæða væri til þess að fara í litla vaxtalækkun meðan núverandi staða væri uppi.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mögulega hægt að ganga lengra en að fara í „aumingjalegar lækkanir“

„Hefur litla þýðingu að hreyfa stýrivexti um 25 punkta [0,25 prósentustig], sem dæmi, þegar þessi meginþungi blasir við,“ sagði hann og vísaði aftur til áhrifa af kjarasamningum og aukinni einkaneyslu, sem og stöðunni á fasteignamarkaði.

Sagði hann að ef verðbólgan myndi ganga hratt niður væri hins vegar ekki þörf fyrir „aumingjalegar lækkanir“ heldur verði hægt að gera það skarpar en með t.d. 0,25 prósentustiga lækkunum.

Að lokum tók Ásgeir fram að ótrúlegur kraftur væri í íslenska hagkerfinu miðað við það vaxtastig sem hafi verið síðasta heila árið. Sagði hann að núverandi stefna nefndarinnar verði til staðar þangað til kerfið kólni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert