Hjónin Einar Birgir Baldursson og Íris Sif Hermannsdóttir hafa á undanförnum tveimur árum unnið að því að gera upp Herjólfsbæ í Vestmannaeyjum, sem nú hefur verið breytt í safn.
Herjólfsbærinn, sem byggður var fyrir um 20 árum, lá lengi undir skemmdum þar til Einar og Íris tóku að sér að leigja húsið og endurgera það.
„Bærinn á þetta hús og það var byggt fyrir einhverjum 20 árum. Það var opið fyrir alla en lá undir skemmdum. Ég spurði bæinn hvort við hjónin mættum leigja húsið, laga það og gera upp, sem við erum búin að gera,“ segir Einar.
Hafa þau breytt húsinu í safn sem segir sögu Herjólfs Bárðarsonar og hans fjölskyldu. Herjólfsbær er nefndur eftir Herjólfi, sem var einn af fyrstu landnámsmönnum Íslands.
„Upprunalega hugmyndin var að segja söguna af Herjólfi og Vilborgu, dóttur hans, sem allir Vestmannaeyingar þekkja en mjög fáir aðrir,“ segir Einar en Árni heitinn Johnsen hafði á sínum tíma frumkvæði að uppbyggingu Herjólfsbæjar.
Einar vonast til að safnið muni laða að ferðamenn sem vilja fræðast um sögu Vestmannaeyja, þar séu fleiri sögur en bara lundaskoðun og eldgosið í Eyjum 1973.
„Margir ferðamenn vilja vita allt um söguna okkar. Þetta er í rauninni bara annar vinkill fyrir þá,“ segir Einar. „Við breyttum þessu í safn um Herjólf og Vilborgu, en það vantaði smá kjöt á beinin,“ bætir hann við.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag