Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu í dag hornstein að nýju húsnæði Háskóla Íslands, Sögu við Hagatorg. Endurbætur á byggingunni eru langt komnar, og gert er ráð fyrir að starfsfólk og nemendur flytji inn síðar á þessu hausti.
Framkvæmdir við Sögu hófust árið 2022 eftir að ríkið og Félagsstofnun stúdenta keyptu húsnæðið í lok árs 2021. Húsnæðið mun hýsa ýmsa starfsemi tengda Háskóla Íslands, þar á meðal Menntavísindasvið, sem flyst frá Stakkahlíð og Skipholti, ásamt upplýsingatæknisviði skólans og fleiri starfseiningum. Í húsinu eru einnig 111 nemendaíbúðir á vegum Félagsstofnunar stúdenta, en fyrstu nemendurnir fluttu inn í þær á vormánuðum 2023.
Á athöfninni í dag var skjal lagt í nýjan hornstein, en skjalið ræðir byggingarsögu hússins og nýtt hlutverk þess. Skjalið var undirritað af Áslaugu Örnu, Jóni Atla og Guðrúnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Félagsstofnunar stúdenta, og var það sett í sama hólk og upprunalega skjalið sem fannst í hornsteini Bændahallarinnar.
Jón Atli sagði athöfnina einstaka og merka: „Þetta var líka bara skemmtilegt tilefni þar sem þessi hólkur fannst og við skoðuðum hann. Okkur fannst viðeigandi að nýta tækifærið og setja nýtt skjal til að fagna því að við séum að flytja hingað inn.“
Jón Atli lýsti framtíðarsýn sinni fyrir Menntavísindasvið í nýja húsnæðinu: „Fyrir það fyrsta er þetta mjög glæsileg bygging og það er mjög aðlaðandi fyrir starfsfólk að vinna hérna og fyrir nemendur að nema hérna. Menntavísindin eru hornsteinn háskólamenntunar og ég sé tækifæri fyrir meiri samþættingu milli fræðasviða. Það skiptir miklu máli að við séum ein heild.“
Hann benti einnig á að mikið hafi verið lagt upp úr því að varðveita upprunalegan arkitektúr og listaverk hússins, þó að breytingar hafi þurft að gera til að aðlaga hótelið að nýju hlutverki sínu sem háskólahúsnæði.
„Menntavísindasvið hefur ekki verið partur af þessu háskólasvæði sem hér hefur verið að byggjast upp en nú eru að verða breytingar á því og það munar mikið um það að menntavísindasviðið komist nær annarri starfsemi háskólans og þá vonandi með aukinni samþættingu náms á menntavísindasviðum með öðrum greinum, til að mynda raunvísinda- og tæknigreinum sem veruleg þörf verður á til framtíðar. Það hefur verið mikil umræða um menntakerfið á undanförnum mánuðum og þá má ekki skilja undan mikilvægi kennaramenntunar og að við höldum vel á spilunum þar og þróumst á sama tíma í takti við tímann og nýjar áskoranir,“ segir Áslaug.
Hún lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að viðhalda sögulegum tengslum hússins: „Þetta er merkilegt hús og hér er sögunni gert hátt undir höfði. Saga hússins tengist undirstöðu atvinnugreina eins og landbúnaði, menningu og samkvæmislífi þjóðarinnar, og nú verður þetta hús miðpunktur á mennta- og menningarsvæði Reykjavíkur.“