Myndskeið: Lögn fór í sundur og garðurinn á flot

Lögn fór í sundur í garði Ásdísar.
Lögn fór í sundur í garði Ásdísar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er eiginlega bara í áfalli yfir þessu því það er ekkert ferli hjá Veitum sem grípur þetta,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir, íbúi í Salahverfi í Kópavogi, en hitavatnslögn í garðinum hennar fór í sundur eftir að heitu vatni var aftur hleypt á stóran hluta höfuðborgarsvæðisins fyrr í dag.

Ásdís sem er um þessar mundir stödd í fríi á Ítalíu fékk fyrr í dag myndband frá nágranna sínum sem sýndi að „það væri komið gufubað og uppistöðulón“ í garðinum við hús hennar.

Ástæðan var heitavatnslögn sem hafði farið í sundur eftir að Veitur hleyptu aftur heitu vatni á stóran hluta höfuðborgarsvæðisins.

Ásdís birti myndir og myndskeið úr garðinum á Instagram-síðu sinni en þar má sömuleiðis finna lýsingu á atburðarásinni.

„Þá veit ég ekki hvað er tjón hjá Veitum“

Það leið ekki á löngu áður en að viðgerðarfólk frá Veitum mætti á staðinn en viðbragstíminn var heldur lengri þegar Ásdís reyndi að fá staðfest að hún fengi tjónið bætt.

Ásdís hringdi ítrekað í Veitur sem sögðu henni að ekkert væri hægt að aðhafast í málinu fyrr en tjónið hafði verið tilkynnt til VÍS og VÍS sagði henni að hún þyrfti að tilkynna tjónið formlega sem var hægara sagt en gert þar sem Ásdís er stödd erlendis.

„Ég held að það hafi tekið mig 10 símtöl til Veitna og VÍS þangað til ég fékk tölvupóst seinni partinn í dag frá Veitum sem sagði „[...]Ég fékk tjónstilkynningu þína frá VÍS í dag og er málið komið í umsagnarferli hjá okkur og munum við svara VÍS eins fljótt og kostur er,““ segir Ásdís í samtali við mbl.is og bætir við:

„Það er sem sagt komið í umsagnarferli hvort það sé tjón heima hjá mér eftir að heitavatnslögn fór í sundur hjá Veitum og fossaði heitt vatn í garðinn hjá mér í klukkutíma. Ef að þetta er ekki tjón, ef að þeir þurfa í alvörunni að fara í gegnum umsagnarferli til að fá úr því skorið hvort þetta sé tjón, þegar þau eru með fjölda fólks í garðinum mínum að vinna við það að finna lögnina, grafa allan garðinn í sundur, þá veit ég ekki hvað er tjón hjá Veitum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert