Nemandi fær 4 milljónir í bætur en útskrifast ekki

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd/Háskólinn á Akureyri

Ríkislögmaður féllst á að greiða nemanda við Háskólann á Akureyri alls fjórar milljónir króna vegna framgöngu skólans gegn honum, eftir að í ljós kom að leiðbeinandi hafði fjárhagslega hagsmuni af mastersrannsókn nemandans. 

RÚV greindi fyrst frá.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að leiðbeinandinn hefði einnig sent Vísindasiðanefnd, sem hafði málið til skoðunar tölvupóst, hvar í alvarlegar ávirðingar í garð kæranda auk viðkvæmra persónuupplýsinga um hennar einkalíf voru komu fram, auk þess sem þar er að finna útlistun á orðrómi um einkahagi kæranda.

Krafðist nýs leiðbeinanda

Nemandi stundaði framhaldsnám á heilbrigðisvísindasviði við HA og vann kærandi að meistaraverkefni á námslínunni Sálræn áföll og ofbeldi. Hafði kærandi lokið öllum einingum til prófgráðu að undanskildum 60 ECTS einingum fyrir meistararitgerð. 

Málið hófst með kæru nemanda í apríl 2023 sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema.

Var þar krafist úrskurðar um hvort málsmeðferð HA hefði verið samræmi við lög hvað varðar tillögur HA um lok meistaraverkefnis kæranda í kjölfar þess að Vísindasiðanefnd  (VSN) taldi hagsmunatengsl leiðbeinanda og val á þátttakendum rannsóknar í andstöðu við lög og gerði kröfu um eyðingu rannsóknargagna. Fór nemandi sömuleiðis fram á útvegun nýs leiðbeinanda.

Ágreiningur um hlutverk ábyrgðarmanns.

Hafði VSN veitt rannsóknarleyfi fyrir rannsókn í tengslum við meistararitgerð nemandans samkvæmt rannsóknaráætlun og vann kærandi að ritgerðinni undir leiðsögn leiðbeinandans sem jafnframt var ábyrgðarmaður rannsóknar.

Samskipti nemandans, leiðbeinandans og meðrannsakenda höfðu verið góð í fyrstu en halla tók undan fæti er leið að skilum.

Lýsti nemandi því sem svo í kvörtun til HA árið 2019 að samskipti skorti skýrleika varðandi mikilvægar vörður, dagsetningar og að misskilnings hafi gætt um framvindu rannsóknarinnar. Sömuleiðis hafi verið ágreiningur um hlutverk ábyrgðarmanns.

Hafði nemandinn leitað til sviðforseta Heilbrigðisvísindasviðs skömmu áður vegna áhyggna af vinnubrögðum leiðbeinandans. Hafði nemandann m.a. grunað að leiðbeinendinn hefði ekki gætt að hagsmunatengslum og upplýst um fjárhagslegan ávinning sem hún kynni að hafa af því verkefni sem var andlag rannsóknarinnar.

Ekki náðust þar sættir á fundi um málið með sviðsforseta, leiðbeinanda kæranda, skrifstofustjóra hjá HA og tveimur nemendum frá stúdentaráði HA og vísaði nemandi málinu í kjölfarið til úrskurðarnefndar HA og VSN. 

Greindi ekki frá hagsmunatengslum 

Tók VSN málið til skoðunar og óskaði m.a. eftir sjónarmiðum leiðbeinandans ásamt  upplýsingum og gögnum. Svaraði leiðbeinandinn með bréfi og spurði þar hvort ábyrgðarmaður rannsóknarinnar þ.e. hún, hefði heimild til að „segja meistaranema upp“ vegna „vanhæfi nemans.“

Í frumniðurstöðu VSN kom fram að ljóst væri að meðrannsakandi verkefnisins þ.e. leiðbeinandinn hefði hagsmunatengsl við verkefnið.

Við það væru ekki gerðar athugasemdir svo fremur sem skipulag og framkvæmd rannsóknarinnar væru kynnt í umsóknarferli og kynningarefni. Var ekki talið að þau skilyrði hefðu verið uppfyllt. 

Þá kom einnig fram að framkvæmd við öflun þátttakenda í rannsókninni hefði verið í ósamræmi við samþykkta rannsóknaráætlun og lög um vísindarannsóknir og verið „alvarleg og aðfinnsluverð.“

Útlistaði orðrómi um einkahagi nemandans

Greindi VSN ábyrgðarmanni rannsóknarinnar og HA frá því að til skoðunar væri að fara fram á að rannsókn yrði hætt og öllum gögnum eytt. 

Brást leiðbeinandinn við og sagði að rannsóknin yrði „stöðvuð þegar í stað“ og „öllum gögnum eytt.“ Kvaðst leiðbeinandinn þó ekki sammála grundvelli niðurstöðu nefndarinnar heldur kenndi vinnubrögðum nemanda um og sagði hann ekki hafa tekið leiðsögn.

Varð það endanleg niðurstaða VSN þann 25. júní 2019 að afturkalla rannsóknarleyfið „að virtum þeim alvarlegu ágöllum“ sem væru á framkvæmd rannsóknarinnar.

Þá eru viðbrögð Vísindasiðanefndar við tölvupóstum leiðbeinandans rakin í úrskurði áfrýjunarnefndar og segir þar að erindið hafi að geyma „alvarlegar ávirðingar í garð kæranda auk viðkvæmra persónuupplýsinga um hennar einkalíf, auk þess sem þar er að finna útlistun á orðrómi um einkahagi kæranda. Ekki er ástæða til að rekja efnistök erindisins nánar.“

Gat ekki útskrifast á réttum tíma

Hvorki HA né úrskurðarnefnd HA urðu við því að útvega kæranda nýja leiðbeinendur fyrr en 5. júní 2019. En eins og áður greinir komst VSN að þeirri niðurstöðu þann 25. júní að rannsóknin yrði afturkölluð og upplýsti skólinn kæranda um að ekki væri unnt að útvega henni nýja leiðbeinanda við rannsókn sem hefði verið afturkölluð.

Lagði HA til að óháður aðili legði mat á vinnuframlag nemandans sem myndi sömuleiðis gera munnlega grein fyrir vinnu sinni og legði jafnframt til mats fræðilegan kafla ritgerðarinnar.

Kvaðst nemandinn tilbúin að fallast á það svo fremur sem að HA myndi fallast á kröfur hennar. Gerði nemandi m.a. kröfu um matið myndi standast faglegar kröfur háskólalaga þannig að tryggt yrði að útskrift hennar væri gild. 

Fór nemandi sömuleiðis fram á að samþykkja val á óháðum aðila og að HA myndi afhenda sér skriflega afsökunarbeiðni og viðurkenndi þar af leiðandi bótaskyldu. 

Svaraði HA bréfi nemandans varðandi skilyrðin um ári síðar og því ljóst að hún gat ekki útskrifast á áætluðum tíma. Samkvæmt gögnum málsins virðist bótakröfunni hafa verið hafnað árið 2020, er fram kemur í úrskurði áfrýjunarnefndar.

Málsmeðferð óhóflega löng

Málinu var að lokum vísað frá af áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema þar sem kærufrestur var liðinn að mati nefndarinnar.

Sömuleiðis séu nemandinn og HA ekki sammála um stöðu mála þar sem nemandinn telji málum lokið innan HA, en Háskólinn segi nemandanum enn frjálst að ljúka námi sínu. Á fundi kæranda með nefndinni kom fram að hún treysti sér ekki til að klára nám sitt við HA.

Kærði nemandinn í kjölfarið málið til menntamálaráðuneytisins og var þá fallist á að Háskólinn á Akureyri hefði dregið málsmeðferð og ákvarðanatöku í máli nemandans óhóflega lengi. 

Bauð ríkislögmaður í kjölfarið eina og hálfa milljón króna í miskabætur og hálfa milljón til viðbótar vegna fjártjóns. Þá féllst ríkislögmaður einnig á að greiða nemandanum eina milljón í lögmannskostnað, þrátt fyrir að meginreglan sé að kærendur beri sjálfir lögmannskostnað. Málið sé aftur á móti álitið sérstakt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert