Rigning sunnan heiða og gul vindviðvörun á Suðausturlandi

Skil mjakast nú yfir landið og því verður víða rigning …
Skil mjakast nú yfir landið og því verður víða rigning eða súld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag fer nokkuð djúp lægð miðað við árstíma til austurs fyrir sunnan land. Lægðin veldur allhvössum eða hvössum austan vindstreng á Suðausturlandi og allra syðst á landinu og hefur gul vindviðvörun verið gefin út af þeim sökum.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á sunnanverðu landinu verður rigning í dag en í öðrum landshlutum verður skýjað en búast má við vætu öðru hvoru einkum þegar líður á daginn. Hitinn á landinu í dag verður 6 til 12 stig.

Á morgun gera spár ráð fyrir að áðurnefnd lægð verði komin fyrir austan land. Þá gengur í norðan stinningskalda nokkuð víða og bætir heldur í vindinn þegar líða fer að kvöldi. Á sunnanverðu landinu verður þurrt að kalla, en í öðrum landshlutum rigning eða súld og búast má við talsverðri úrkomu norðaustantil.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert