Svandís: Sáttmálinn „lifandi reikningsdæmi“

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra á fundinum í dag.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra á fundinum í dag. mbl.is/Eyþór

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra segir nýjan samgöngusáttmála mikilvægan áfanga fyrir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Hún talar um sáttmálann sem „lifandi reikningsdæmi“ en enn á eftir að útfæra ýmis atriði varðandi fjármögnun hans. 

„Þetta er náttúrulega bara mjög dýrmætur og mikilvægur áfangi fyrir samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu en líka bara fyrir framtíðarsýn uppbyggingar samfélagsins.

Það hvernig stjórnvöld stilla saman strengi, ríkið og sveitarfélögin hérna á höfuðborgarsvæðinu sameinast um framtíðarsýn sem nær út fyrir kjörtímabil og út fyrir flokkslínur með samgöngusáttmálanum er náttúrulega bara stórkostlegt,“ sagði Svandís við blaðamann mbl.is að loknum kynningarfundi á sáttmálanum fyrr í dag.

Á eftir að hnýta lausa enda

Gert er ráð fyrir að kostnaður við sáttmálann verði um 311 milljarðar en á kynningarfundinum kom fram að ríkið muni fjármagna hann að hluta með sölu á Keldnalandi og með tekjum af umferð.

Spurð hvernig tekjurnar af umferð verði rukkaðar segir Svandís: 

„Það er bara hluti af því sem mun vera útfært eftir því sem líður á sáttmálann. Það er ekki búið að hnýta þarna alla lausa enda. Við erum búin að raða framkvæmdunum í tiltekna tímaröð og það eru ýmis mál sem á síðan eftir að útfæra varðandi fjármögnunina.“

Ýmsar breytilegar forsendur

Í kynningunni á sáttmálanum kom sömuleiðis fram að sett verði á laggirnar sam­eig­in­legt rekstr­ar­fé­lagi fyr­ir rekst­ur al­menn­ings­sam­ganga á höfuðborg­ar­svæðinu, en ríkið mun fjár­magna rekst­ur þess um þriðjung meðan sveit­ar­fé­lög­in sex munu greiða tvo þriðju hluta rekst­urs­ins.

Spurð hvort það liggi fyrir hvað þetta muni kosta ríkið segir Svandís:

„Það er bara verið að vinna með tiltekið hlutfall og það er bara innsiglað í samningnum og undirritað í dag. Síðan er það að koma því samkomulagi til framkvæmdar. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt skref að ríkið stígi með þessum hætti beint inn í rekstur almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu um leið og við erum líka að leggja til fjármagn til orkuskipta í almenningssamgöngum.“

Þannig það kemur bara í ljós þegar þetta fer á stað hver kostnaðurinn verður?

„Já, þetta er allt saman lifandi reikningsdæmi því að það eru ýmsar forsendur sem eru breytilegar og svo auðvitað þegar að flotinn færist í annað eldsneyti hefur það líka áhrif.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert