„Það eru dimm ský á lofti“

Sigurður vill að sveitarfélögin auki lóðaframboð.
Sigurður vill að sveitarfélögin auki lóðaframboð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins (SI), segir að ríkisstjórnin ætti að funda með Seðlabanka Íslands sem allra fyrst og fá ráðgjöf um það hvað ríkisvaldið þurfi að gera til að draga úr verðbólgu.

„Það eru dimm ský á lofti. Við erum að sjá hagvaxtarspána tekna niður, við erum að sjá spár um aukið atvinnuleysi miðað við það sem áður var talið og Seðlabankinn telur að verðbólgan verði þrálátari en áður var talið þrátt fyrir ýmsar aðgerðir,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is, inntur eftir viðbrögðum við því að stýrivextir verði áfram óbreyttir í 9,25%.

„Þó að ákvörðun nefndarinnar um óbreytta vexti sé skiljanleg og í raun það sem allir áttu von á, þá kemur þessi harði tónn nefndarinnar á óvart. Það eru í raun engar vísbendingar um það að vextir lækki í fyrirsjáanlegri framtíð,“ segir hann.

Ríkið þurfi að setja þrýsting á sveitarfélögin

Peningastefnunefnd segir að und­ir­liggj­andi verðbólga sé mik­il og verðhækk­an­ir séu á breiðum grunni, þótt hús­næðisliður­inn vegi enn þungt.

Sigurður hefur áhyggjur af því að með svona háum vöxtum þá séu minni líkur á þeirri húsnæðisuppbyggingu sem þarf til að draga úr verðbólgu á húsnæðismarkaði.

Hann segir ekkert annað vera til ráða á þeim markaði en að byggja fleiri íbúðir. Hann kveðst sakna raunverulegra aðgerða af hálfu ríkis og sveitarfélaga til að fjölga íbúðum í byggingu.

„Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið og framboð á lóðum og það er auðvitað forsenda þess að byggja. Í sjálfu sér skiljum við ekki alveg af hverju ríkið hefur ekki stigið niður fæti á mun ákveðnari hátt gagnvart sveitarfélögunum til þess að kalla fram breytingar á skipulagi í þágu meiri uppbyggingar,“ segir Sigurður.

Hann segir að allir aðilar þurfi að gera sitt til að draga úr verðbólgu og þar horfi SI mest á ríkið, sem þurfi að ráðast í aðgerðir til að styrkja framboðshlið hagkerfisins.

Ríkisstjórnin eigi að funda með seðlabankastjóra

Alþýðusam­band Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins kölluðu í gær eftir framsýni af hálfu Seðlabankans. Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, sagði í samtali við mbl.is í morgun að Seðlabankinn þyrfti að koma með leiðsögn um það hvað þurfi til svo að hægt sé að byrja að lækka vexti.

Sigurður tekur undir það og bætir við því að hann vilji sjá forystumenn ríkisstjórnarinnar funda með Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra og fá ráðgjöf um hvað ríkið geti gert til að draga úr verðbólgu.

„Það kæmi mér mjög á óvart ef að forystumenn ríkisstjórnarinnar myndu ekki eiga fund með seðlabankastjóra strax í dag til þess að ræða það hvernig hægt sé að bregðast við og grípa til aðgerða til þess að ná betri tökum á efnahagsmálum á Íslandi,“ segir hann og útskýrir að hann eigi við að Seðlabankinn myndi veita ríkisstjórninni leiðsögn.

Ríkið þurfi að létta undir með Seðlabankanum

Hann segir að þessi leið, að halda vöxtum háum í langan tíma og kæla hagkerfið, sé kostnaðarsöm fyrir þjóðarbúið.

„Það eru til aðrar leiðir sem eru mun mildari þannig að stjórnvöld þurfa vinna saman að því. Leiðin þar er auðvitað að ríkisvaldið stigi inn og létti undir með Seðlabankanum, eins og Seðlabankinn hefur kallað eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert