„Það var strax tekið eftir þessu“

Óvenjuleg virkni hófst í Ljósufjallakerfinu um mitt ár 2021 þegar fjöldi smáskjálfta mældist. Alls urðu 83 skjálftar í kerfinu það ár og síðustu tvö ár hefur virknin verið ögn minni, en þó mjög svo frábrugðin virkninni árin fyrir 2021. Í ár hafa mælst um 70 skjálftar og reið smáskjálftahrina yfir nú í byrjun ágúst.

Jarðskjálftavirkni hefur einnig orðið vart í Hofsjökli og síðustu tvö ár hefur virknin meira en tvöfaldast sé fjöldi skjálfta á ári borinn saman við fjölda skjálfta árin þar á undan. Eins og í Ljósufjallakerfinu eru skjálftarnir litlir og ekki margir, í samanburði við skjálfta á virkara eldsumbrotasvæði eins og Reykjanesskaganum.

Frá eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2011.
Frá eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2011. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Eitthvað gerðist árið 1991

Spurður út í aukna virkni í Ljósufjallakerfinu og Hofsjökli rekur Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, söguna af Eyjafjallajökli þar sem eldgos braust út árið 2010.

„Menn muna nú kannski vel þegar Eyjafjallajökull allt í einu tók við sér. Framan af var lítið um að vera í Eyjafjallajökli, smá gos árið 1821 og svo síðan ekki meir. Framan af þessari mæliöld sem við lifum núna var ekkert um að vera í Eyjafjallajökli, hann bara lét eins og ekkert væri. Engir jarðskjálftar og ekki neitt. Síðan gerðist eitthvað árið 1991, þá byrjuðu jarðskjálftar. Það var strax tekið eftir þessu, vegna þess að hann hafði verið svo máttlaus fram að því. Eftir það rak hver atburðurinn annan í þessu eldfjalli. Það urðu innskot og virkni, og skjálftahrinur og landris. Kvikuinnskot inn í rætur eldfjallsins. Það tók hann 18 ár að ná því marki að geta gosið,“ segir Páll.

Viðtalið við Pál má horfa á í heild sinni í Dag­mál­um í dag og lesa í Morg­un­blaðinu.

Kort/mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka