Þetta felst í uppfærðum samgöngusáttmála

Horft er til þess að leggja Sæbraut í stokk á …
Horft er til þess að leggja Sæbraut í stokk á 850 metra kafla. Miklabraut fer hins vegar í göng á 2,8 km kafla í stað stokks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarkostnaður við nýjan samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu verður 311 milljarðar. Miklabraut fer í göng en ekki stokk og framkvæmdir við Fossvogsbrú og þar með borgarlínu fara í gang mjög fljótlega. Þetta er meðal þess sem upplýst var um á kynningarfundi um uppfærðan samgöngusáttmála í dag.

Verður fjárfest fyrir 14 milljarða árlega til ársins 2029 og frá árinu 2030 fyrir 19 milljarða til ársins 2040. Áður hafði verið gert ráð fyrir að kostnaðurinn væri um 170 milljarðar. Gildistími sáttmálans, og þar með framkvæmdatímabil, hefur verið lengt um sjö ár, en upphaflega var gert ráð fyrir að klára verkefnið árið 2033. Fyrr í vikunni hafði Morgunblaðið greint frá lengri framkvæmdatímabili og auknum kostnaði verkefnisins.

Fram kom í kynningunni að af því fjármagni sem sett verður í samgöngusáttmálann munu 42% fara í stofnvegi, 42% í borgarlínu og 13% í göngu- og hjólastíga. Að lokum fer 3% í umferðarstýringu, bætt flæði og öryggi.

Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eyþór

Ríkið sér um þungan af fjármögnun

Ríkið mun fjármagna 87,5% af sáttmálanum en sveitarfélög 12,5%. Munu sveitarfélög fjármagna verkefni sáttmálans með beinum framlögum. Ríkið mun fjármagna sinn hluta með beinum framlögum, ábata af sölu af Keldnalandi og tekjum af umferð eða með annarri fjármögnun.

Stærsta breytingin frá fyrri sáttmála er að Miklabraut verður ekki lögð í stokk, heldur verða boruð 2,8 km löng jarðgöng frá Skeifu að Landspítala. Þá er Sæbrautarstokkur að fullu kominn inn í núverandi sáttmála og búið er að vinna nánari greiningu á kostnaði verkefnisins sem hefur ýtt heildarkostnaðartölunni upp.

Upplýst var að göng frekar en stokkur við Miklubraut væri mun ódýrari kostur og myndi valda mun minna raski og óþægindum en stokkur.

Borgarlínuáform óbreytt

Óbreytt áform eru um uppbyggingu borgarlínu og grunnhönnun hennar frá því sem kynnt var í frumdrögum að fyrstu lotu borgarlínu. Fyrsti hluti þess verkefnis verður eftir sem áður Fossvogsbrú, en fyrsti áfangi Borgarlínu mun ná frá Hamraborg í Kópavogi yfir Fossvogsbrú yfir að BSÍ, þaðan að HÍ og gegnum miðbæinn og gegnum Suðurlandsbraut og upp á Ártúnshöfða.

Vagnarnir verða í sérrými og að mestu með forgang á gatnamótum. Vagnar munu aka á 7-10 mín fresti á annatímum og með yfirbyggðum stöðvum. Sérakreinar verði einnig nýttar undir neyðarumferð viðbragðsaðila.

Fyrsti áfangi borgarlínu felur í sér brú yfir Fossvog og …
Fyrsti áfangi borgarlínu felur í sér brú yfir Fossvog og stefnt er að því að þær framkvæmdir hefjist fljótlega. Ljósmynd/Efla/Beam Architects

Ríkið kemur að rekstri almenningssamgöngum

Þá verður komið upp sameiginlegu rekstrarfélagi fyrir rekstur almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, en ríkið mun fjármagna rekstur þess um þriðjung meðan sveitarfélögin sex munu greiða tvo þriðju hluta rekstursins. Verður þetta félag stofnað næstu áramót.

Frá því að samgöngusáttmálinn var undirritaður árið 2019 hafa þrjár stofnvegaframkvæmdir klárast og sú fjórða er hafin. Þetta eru; Vesturlandsvegur: Skarhólabraut-Hafravatnsvegur, Reykjanesbraut: Kaldárselsvegur-Krísuvíkurvegur og Suðurlandsvegur: Bæjarháls-Vesturlandsvegur. Lauk þessum verkefnum árin 2021 og 2022. Í fyrra hófust svo framkvæmdir við Arnarnesveg frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut, en verklok eru áformuð árið 2026.

80 km göngu- og hjólastígar til viðbótar

Frá undirritun sáttmálans árið 2019 hafa 20 km af hjóla- og göngustígum verið lagðir, þrenn undirgöng og tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi. Að lokum hefur 1,6 milljörðum verið varið í tækjabúnað og tækniþróun fyrir umferðarljósastýringar og aðrar smærri framkvæmdir til að bæta umferðarflæði og öryggi í umferðinni. Í kynningunni kom fram að í uppfærðum sáttmála verður 80 km bætt við til ársins 2040.

Reiknaður ábati 1.140 milljarðar

Samkvæmt kynningunni í dag er áætlaður samfélagslegur ábati af sáttmálanum til 50 ára 1.140 milljarðar, eða 3,5 faldur kostnaður framkvæmdanna.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að heildarkostnaður verkefnisins væri tæplega 300 milljarðar, en það var byggt á árlegri áætlaðri fjárfestingu. Í tilkynningu stjórnarráðsins kemur hins vegar fram að heildarkostnaðurinn sé samtals 311 milljarðar til ársins 2040. Hefur fréttin verið uppfærð samkvæmt því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert