„Því færri sem dvelja í bænum því betra“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er rólegt yfir þessu í augnablikinu en það eru auðvitað allir á tánum og tilbúnir að bregðast við ef það fer að gjósa.“

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í spjalli við mbl.is en áfram eru miklar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni.

Í tilkynningu sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi frá sér í morgun hefur þeim fækkað sem dvelja í húsum sínum að næturlagi í Grindavík en dvalið var í 22 húsum í bænum síðastliðna nótt en í síðustu viku var dvalið í 34 húsum.

Ekki upplýsingar um að börn hafi dvalið í bænum

„Það hefur aðeins dregið úr þessum fjölda og við höfum ekki upplýsingar um að börn hafi dvalið í bænum síðastliðna nótt,“ segir Úlfar en í tilkynningu lögreglustjórans kemur fram að íbúar, starfsmenn og gestir dvelja inn á hættusvæði á eigin ábyrgð og hver og einn verði að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.

„Því færri sem dvelja í bænum því betra. Það er starfsemi í Svartsengi, bæði í Bláa lóninu og í orkuverinu og síðan er vinna við varnargarðana í fullum gangi á dag- og næturvöktum. Það eru fáir inni í bænum,“ segir Úlfar.

Hann segir að öll vinna lögreglu og viðbragðsaðila miðist við það að það geti dregið til tíðinda mjög fljótlega.

„Það virðist ætla að gjósa en hvað veit maður,“ segir Úlfar lögreglustjóri.

Hann segir alltaf eitthvað um það að ferðamönnum og þá aðallega erlendum sé snúið við á lokunarpóstum en það hafi ekki skapað nein vandamál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert