„Við fyrstu athugun myndi maður segja að þetta væri tilviljanakennt. En svo ef maður skoðar þetta í samhengi við annað sem hefur gerst á landinu er ýmislegt sem bendir til þess að kvikuvirkni undir landinu komi í hrinum,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í Dagmálum í dag.
Hann var spurður hvort það væri tilviljun að líf sé að kvikna í bæði Ljósufjallakerfinu, sem teygir sig frá Kolgrafarfirði í vestri að Norðurá í Borgarfirði, og eldstöðvakerfinu í Hofsjökli. Á sama tíma hafa átta eldgos orðið á Reykjanesskaga.
Lífsmarkið í þessum tveimur eldstöðvum getur virst tilviljanakennt í fyrstu, að sögn Páls, en sé það sett í samhengi við annað sem í gangi er á landinu bendi ýmislegt til þess að kvikuvirkni undir landinu komi í hrinum.
„Ísland er náttúrulega það sem við köllum heitur reitur, undir landinu er möttulstrókur sem á upptök djúpt í möttli jarðar. Þessi strókur, efnið í honum er fast efni að mestu leyti. Það er á hægri hreyfingu upp á við. Það er að skila orku frá innviðum jarðarinnar og upp til yfirborðs. Efnið í honum er heitt, þegar það nálgast yfirborðið þá lækkar í því bræðslumarkið. Það byrjar að bráðna, efnið í þessum möttulstrók, þegar það nálgast yfirborðið. Vökvinn sem verður til, kvikan, stígur upp og fóðrar þessa eldvirkni,“ útskýrir Páll.
„Það virðist eins og það skiptist svolítið á, lítið virk tímabil og virkari tímabil. Það svona læðist að manni grunur um að þetta geti virkað á svona tímaskalanum öld eða svo.“
Viðtalið við Pál má horfa á í heild sinni í Dagmálum í dag og lesa í Morgunblaðinu.