Umferðagjöld lögð á eftir fimm ár

Innheimta á umferðagjöldum á völdum götum á höfuðborgarsvæðinu á að …
Innheimta á umferðagjöldum á völdum götum á höfuðborgarsvæðinu á að hefjast árið 2030. Sveitarstjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ráðherrar undirrituðu uppfærðan samgöngusáttmála í dag. Samsett mynd/Eyþór

Svokölluð flýti- og umferðagjöld verða lögð á árið 2030, eða eftir rúmlega fimm ár samkvæmt þeim áætlunum sem settar eru fram í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Gert er ráð fyrir að tekjur af slíkum gjöldum verði um 143 milljarðar milli ársins 2030 og 2040 og að upphæðin muni standa undir tæplega helmingi af heildarkostnaði við sáttmálann.

Uppfærður samgöngusáttmáli var kynntur í dag, en í greinargerð og framkvæmdaráætlun um samkomulagið, sem birt var á vef Stjórnarráðsins, má meðal annars sjá að áformað er að leggja gjöldin á árið 2030.

Eiga að skila 13 milljörðum árlega

Gert er ráð fyrir að slík gjöld muni skila 13 milljörðum árlega, eða 143 milljörðum yfir 11 ár.

Í greinargerðinni kemur fram að þetta sé í takti við stefnu stjórnvalda um að fjármögnun vegakerfisins skuli miðast við notkun þess í stað sértækra gjalda. Þegar hefur verið tekið upp kílómetragjald á rafmagnsbíla og munu aðrar bifreiðar fylgja í kjölfarið.

Sjálfvirkar myndavélar á völdum götum

„Gjaldtakan yrði framkvæmd með sjálfvirkri myndgreiningu þannig að bílferðir um valdar götur sem tengja afmörkuð valin svæði verði skráðar með myndavélum sem taka munu myndir af bílnúmerum. Áhersla yrði á svæði þar sem umferð er mikil og gott aðgengi að öðrum samgönguvalkostum. Ekki er búið að útfæra hvernig gjaldtöku yrði háttað en til greina kemur að hafa hámarksgjald á sólarhring fyrir stórnotendur,“ segir í greinargerðinni.

Þá er tekið fram að allir sem aki um svæðið þurfi að greiða gjaldið, að undanþeginni umferð neyðarbifreiða og almenningssamgöngum. Þá yrði gjaldið hærra á þeim tíma dags þegar umferð er þyngst, þ.e. að morgni og síðdegis virka daga. „Mikilvægt er að litið verði til sanngirnissjónarmiða við útfærslu kerfisins,“ segir í greinargerðinni.

Komið verður upp sjálfvirkum myndavélum á völdum götum á höfuðborgarsvæðinu …
Komið verður upp sjálfvirkum myndavélum á völdum götum á höfuðborgarsvæðinu frá og með 2030. Á gjaldheimtan að skila 13 milljörðum árlega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mun hafa áhrif á ferðavenjur

Taldar eru miklar líkur á að upptaka flýti- og umferðargjalda muni hafa áhrif á ferðavenjur borgarbúa og segir að prófanir í umferðarlíkani bendi til þess að áhrifin muni hafa jákvæð áhrif á notkun almenningssamgangna. Væntanlega er þar vísað til þess að með auknum gjöldum á umferð bifreiða verði hagkvæmara fyrir fólk að ferðast í almenningssamgöngum.

Heildarkostnaður samgöngusáttmálans er nú áætlaður 311 milljarðar frá 2019 til ársins 2040. Miðað við að flýti- og umferðagjöld eigi að skila 143 milljörðum er ljóst að þau eiga að standa undir um 45% af heildarkostnaði samkomulagsins.

Stærstu framkvæmdaárin eftir 2030

Þá sést út frá kostnaðar- og tekjuáætlun að kostnaður við samgöngusáttmálann mun aukast úr 7 milljörðum í ár og upp í 11,2 milljarða á næsta ári og svo stöðugt aukast upp í 30,4 milljarða árið 2030. Árin þar á eftir verða samkvæmt áætluninni stærstu framkvæmdaárin, en þá verða framkvæmdir við mislæg gatnamót á Reykjanesbraut í Hafnarfirði í gangi og jarðgangavinna við Miklubraut að hefjast og síðar vinna við Garðabæjarstokkinn.

Þetta verða einnig stærstu árin í framkvæmdum við borgarlínu, þó að þær framkvæmdir verði umtalsverðar strax frá næsta ári.

Halli á rekstrinum til 2035

Á tekjuhliðinni er gert ráð fyrir að tekjur muni aukast umtalsvert árið 2028 þegar söluhagnaður af Keldnalandi hefst. Árið 2030 er svo gert ráð fyrir umferðagjöldum sem skila 13 milljörðum árlega og kemur það því inn í það tímabil þegar mestar framkvæmdir eru. Það helst því nokkuð í hendur við aukin útgjöld, en engu að síður verður kostnaður umfram tekjur hjá félaginu til ársins 2035. Nemur uppsafnað tap á því tímabili, samkvæmt rekstaráætluninni, um 43,5 milljörðum. Hins vegar er gert ráð fyrir 45 milljarða afgangi af rekstrinum næstu 6 árin þar á eftir.

Samandregna töflu yfir kostnað við framkvæmdir og hvernig hann mun dreifast eftir árum má sjá hér að neðan.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert