Unnið dag og nótt að hækkun garðsins

Stórvirkar vinnuvélar við varnargarðinn við Svartsengi í gær, en varnargarðurinn …
Stórvirkar vinnuvélar við varnargarðinn við Svartsengi í gær, en varnargarðurinn verður 12 metra hár til að varna því að hraun flæði yfir hann. mbl.is/Eyþór Árnason

Unnið er dag og nótt að hækkun varnargarðsins L6 sem gnæfir yfir Svartsengi en fyrir helgi gaf dómsmálaráðuneytið heimild til þess að halda hækkun á garðinum áfram.

„Þetta er svona sá hluti varnargarðanna sem við teljum að sé einna viðkvæmastann fyrir seinni hluta hraunrennslis frá Sundhnjúkagígaröðinni, ef að það myndast hrauntjarnir sem geta farið af stað í seinni hluta gossins þá er hann einna viðkvæmastur. Þannig við erum að reyna að hækka hann meira en áður var gert ráð fyrir,“ útskýrir Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, í samtali við mbl.is.

Viðbótarheimild fékkst fyrir hækkuninni

Garðurinn kemur til með að hækka mest fyrir miðju en þar er um að ræða hækkun um „allnokkra metra“.

Spurður hvað ráðgert sé að vinnan taki langan tíma segir Ari að áfangin muni taka að minnsta kosti þrjár til fjórar vikur en að unnið sé á bæði dag- og næturvöktum.

„Við höfum verið að taka þetta í ákveðnum áföngum og núna bara fyrir helgi lauk ákveðnum áfanga þarna en á föstudaginn fengum við [...] viðbótarheimild frá dómsmálaráðuneytinu til að hækka enn frekar út af þessum mögulegu hrauntjarnarmyndunum. Við erum byrjuð á þeim áfanga og það tekur okkur að minnsta kosti þrjár fjórar vikur að vinna í því,“ segir Ari.

Búin að verja nokkuð vel

Eldgos á svæðinu er viðbúið á hverri stundu en magn kviku undir Svartsengi er nú meira en fyrir síðasta gos. Spurður hvort það hafi einhver áhrif á framkvæmdirnar við varnargarðanna segir Ari: 

„Nei í sjálfu sér ekki. Á öðrum stöðum teljum við okkur búin að verja nokkuð vel en þarna erum við raunverulega að nýta tímann á meðan ekki er komið gos og hækka garðanna. Samt sem áður þá á garðurinn eins og hann er núna að geta tekið vel við fyrstu vikunum af gosi ef það rennur þarna að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert