„Verið að smala heimilunum eins og sauðfé til slátrunar“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness, vonaði það besta en óttaðist það versta í kjölfar ákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabankans sem í morgun tilkynnti um óbreytta stýrivexti.

Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25% og hafa stýrivextir því haldist óbreyttir í heilt ár.

„Ég held að það liggi alveg fyrir að það stefndi í þessa niðurstöðu þegar klappstýrur fjármálakerfisins klappa fyrir peningastefnunefnd og það er engin gangrýni á störf hennar að hálfu þessara greiningaraðila,“ segir Vilhjálmur við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans.

Vilhjálmur segir að Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, hafi bent á það ekki alls fyrir löngu að það gætti viss meðvirkni á meðal greiningaraðila og segist Vilhjálmur taka undir þau orð hans.

Spurður hvort stýrivaxtarkerfi Seðlabankans sé ekki að virka sem skildi segir Vilhjálmur:

„Það er alls ekki að virka. Við skulum horfa á það að verðtryggingarjöfnuður bankanna er 490 milljarðar í dag og hefur aldrei verið hærri. Bankarnir eiga meiri verðtryggðar eignir heldur en skuldir og það er að gerast einfaldlega vegna þess að það er verið að þvinga skuldsett heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki yfir í verðtryggða fjármögnun í skugga hárra vaxta,“ segir verkalýðsleiðtoginn.

Vilhjámur segir að þegar fólk sé þvingað úr óverðtryggðum vöxtum yfir í verðtryggða vexti þá virki stýritæki Seðlabankans ekki. Hann segir að fjármálaráðherra hafi bent á þetta í fréttum í gær.

„Nú er staðan einfaldlega þannig að það er verið að smala heimilunum eins og sauðfé til slátrunar inn í þessa verðtryggingarétt og geri þannig að verkum að stýritækið virkar ekki sem skildi,“ segir Vilhjálmur.

Fyrst og fremst fyrir þá ríku og fjármálakerfið

Hann segir að 50% af verðbólgunni frá áramótum sé vegna hækkunar á húsnæðisliðnum þrátt fyrir að stýrivextirnir séu 9,25%.

„Á sama tíma og þessar fréttir berast þá komu fréttir í gær að Svíar voru að lækka stýrivexti sína um 0,25% og vextir þar eru 3,5%. Þar er verðbólgan 2,6% sem þýðir að raunstýrivextir Seðlabankans í Svíþjóð er 0,9% en raunstýrivextir Seðlabanka Íslands er hins vegar 2,95%.“

Vilhjálmur segir að kerfið sé fyrst og fremst fyrir þá ríku og fjármálakerfið þar sem ráðist er á almenning eins og enginn sé morgundagurinn.

Aðeins Úkraína og Rússland með hærri vexti

„Nú þarf bara að ráðast að rót vandans og fá það á hreint hvað það er sem veldur því að við erum með þetta eins og raun ber vitni. Það eru einungis tvö lönd sem eru með hærri vexti heldur en við. Það er Úkraína og Rússland. Þetta eru lönd sem eru í blóðugum stríðsátökum. Öll önnur lönd sem við berum okkur saman við eru með vaxtastig sem er langt fyrir neðan það sem við erum að bjóða landsmönnum á,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur reiknar með að það sé afmælisterta í Seðlabankanum þar sem haldið er upp á eins árs afmæli óbreyttra vaxta.

„Menn eru væntanlega að blása á kertið og ég skal fúslega viðurkenna það að ég ætla ekki að blása á þetta kerti. Þeir hljóta að fá klappstýrurnar til að gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert