„Þegar óvissustigi er lýst yfir og við höfum grun um að það sé byrjað að hækka í ánni, þá erum við með viðbragðsáætlun,“ segir Fanney Ásgeirsdóttir þjóðgarðsvörður.
„Strax í morgun fóru landverðirnir mínir af stað, sem eru vestan við Skaftá, til að setja upplýsingar í t.d. sæluhúsin og láta göngufólk vita.“
Segir Fanney áætlunina hafa verið unna í samstarfi á milli almannavarna, þjóðgarðsins og þeirra sem reki hálendismiðstöðina Hólaskjól.
Landverðir skanni nú svæðið í kringum Skaftá til að hafa yfirsýn yfir mannaferðir þar, upplýsa fólk og biðla til þeirra að sýna aðgát.
„Það er ekki margt fólk en það er eitthvað fólk,“ segir Fanney innt eftir því hversu margir séu á svæðinu.
Fulltrúar þjóðgarðsins muni sitja fund með almannavörnum klukkan 14 og sjá hvað úr verði í framhaldinu og hvort frekari aðgerða gerist þörf.
„Ég er á Kirkjubæjarklaustri og það ber ekkert á ánni enn þá. Það hefur ekkert hækkað mikið í henni í nótt og við eigum ekki von á að því að þetta verði stórt hlaup. En það er auðvitað bara allur varinn góður.“