Vill vindorkugarða á afmörkuðum svæðum

Vindorkumálin hafa verið talsvert til tals í samfélaginu síðustu misseri eftir að Orku­stofn­un af­greiddi virkj­un­ar­leyfi fyr­ir vindorku­verið Búr­fells­lund við Vaðöldu. Hafa sumir krafist skýrari stefnumótunar. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að um tímamót í margvíslegu samhengi sé að ræða.

„Ég held að við séum stödd á krossgötum í vindorkumálum og að þetta séu miklu meiri tímamót heldur en að margir geri sér grein fyrir. Nú er sem sagt að nálgast þann tímapunkt að það verði hafist handa við framkvæmdir við fyrsta vindorkugarðinn á Íslandi, sem að verður þá Búrfellslundur. Það er komið mjög langt það ferli og Landsvirkjun hefur undirbúið það í mörg ár,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is og bætir við:

„Þetta eru tímamót í svo margvíslegu samhengi. Í fyrsta lagi er það að gerast að vindorka er að fara að bætast inn í orkuflóruna hjá okkur til viðbótar við jarðvarmann og vatnsaflið. Í öðru lagi þá erum við með til umfjöllunar á þinginu stefnumótunina, rammann utan um það hvernig við ætlum að taka ákvarðanir til lengri tíma. Þar er annars vegar um það að ræða að segja að vindurinn verði hluti af rammaáætlun í framtíðinni og svo hins vegar erum við með þingsályktun sem markar stefnuna hvar til dæmis vindorkan kemur ekki til greina á landinu.“

Dýpri umræða og forgangsröðun valkosta tekin fyrir á Alþingi

Nefnir Bjarni að samspil við sveitarfélög sé sömuleiðis mikið til umræðu um þessar mundir og er sú undirbúningsvinna komin langt á leið.

Segir hann skiljanlegt að umhverfisráðherra segi að við stöndum á viðkvæmum tímamótum og þörf sé á að taka stórar ákvarðanir.

„En umhverfisráðherra er að setja mál inn á dagskrá fyrir þingið og þar er vettvangur til þess að taka dýpri umræðu og skera úr um það hvaða valkosti við setjum í forgang.“

Segist Bjarna hugnast ágætlega það plan sem lagt er upp með. Að vindorkugarðar séu fyrst og fremst á röskuðum og afmörkuðum svæðum.

„Samfélagið allt þarf að átta sig á því að þetta er veruleiki sem við þurfum að fara að taka til umfjöllunar og marka leiðina til framtíðar með,“ segir forsætisráðherrann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert