Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður vatnsmiðla hjá Veitum, segir vatnsþrýsting enn vera að byggjast upp sums staðar eftir heitavatnsleysi.
„Öll hverfi eru komin með vatn en það er sums staðar enn þá að byggjast upp þrýstingur, að því þau sitja mismunandi í landi, en um á hádegisbilið ætti þetta að vera í góðu lagi.“
Víðtækar framkvæmdir á fyrsta áfanga af tvöföldun Suðuræðar leiddu til lokunar frá mánudagskvöldi þar til í dag. Segir Hrefna framkvæmdirnar hafa gengið vel og nokkurn veginn eftir áætlun.
Spurð hvers vegna svo langvarandi lokun hafi verið gerð á svo mörgum svæðum í einu í staðinn fyrir í smærri áföngum, segir Hrefna það vera vegna þess hve framarlega í kerfinu framkvæmdin hafi verið.
„Við erum alveg upp við þar sem vatnið kemur inn á kerfið, það kemur inn á Reynisvatnsvegi, og við erum að koma inn fyrsta áfanga í þessari tvöföldun.“
Megum við vænta frekari lokana á þessum skala í framtíðinni?
„Við erum að halda þessu verkefni áfram og já við getum átt von á að það verði lokanir í tengslum við það en kannski ekki endilega af þessu umfangi,“ segir Hrefna.
„Um leið og borgin vex þá þarf allt að vaxa með.
Hún segir einhverjar ábendingar hafa borist um tjón, sem hafi þó ekki virst tengjast heitavatnsleysinu með beinum þætti. Eftir álagningu hafi aftur á móti komið upp einhverjir minni lekar, við hús eða götur, sem Veitur séu að bregðast við.
„Rétt á meðan við erum að bregðast við því þá eru einhverjar lokanir á litlum afmörkuðum svæðum.“
Ekkert stórvægilegt hafi þó komið upp miðað við hversu mikið álag lokun sem þessi setji á kerfið.
Aðspurð segir hún flesta hafa verið meðvitaða um lokunina og Veitum því tekist vel til með að koma upplýsingunum til skila með aðstoð fjölmiðla.
„Það hafa ekki margir verið hissa.“
Kveðst Hrefna gjarnan koma til skila þökkum til þeirra sem hafi komið að framkvæmdinni en ekki síður íbúum fyrir að sýna skilning.