„Starfslaun listamanna eru mjög oft þannig að þeim er veitt starfslaun í níu mánuði, ekki tólf mánuði. Þetta er oft brot af því sem listamaðurinn er að gera á sínum starfsferli og það kemur í ljós að það eru ýmsir sem að eru ekki í þeirri stöðu að vera með eftirlaun og þetta er eitthvað sem við þurfum að takast á við.“ Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, um nýjan sjóð listamannalauna sem ætlaður er listamönnum yfir 67 ára.
Lilja kynnti í fyrradag breytingar á lögum um listamannalaun sem voru samþykktar á vorþingi.
Starfslaun listamanna hafa áður verið veitt úr sex mismunandi sjóðum fyrir hönnuði, myndlistarmenn, rithöfunda, sviðlistarmenn, flytjendur og tónskáld.
Með lagabreytingunum bætast við tveir nýir sjóðir, þar á meðal vegsemdarsjóðurinn.
„Þetta er skref í þá átt að við erum með heiðursmannalistalaun. Alþingi veitir heiðurslaun listamanna. Við sjáum það að það hefur verið ásókn í þessi heiðurslistamannalaun og við viljum í raun reyna að koma á kerfi þar sem sé betur tekið utan um þessa eldri listamenn sem hafa skarað fram úr,“ segir Lilja um sjóðinn.
Segir hún að verið sé að reyna að slá fyrsta tóninn í því að ná betur utan um afreksfólk í listum.
„Við höldum núna áfram í frekari stefnumótun þar sem við mögulega reynum að samþætta þessi heiðurslaun og vegsemdarsjóðinn inn í sjóð fyrir listamenn sem hafa skarað fram úr.“
Segir hún að mikil eftirspurn hafi verið eftir sjóði eins og vegsemdarsjóðnum.
„Við erum að stíga þetta fyrsta skref. Það hefur mikið verið kallað eftir þessu af Bandalagi íslenskra listamanna og ég tel að þjóðin kunni vel að meta okkar farsælustu rithöfunda og myndlistarfólk og við viljum líka sjá að þau njóti sinna ávaxta.“