Andlát: Örn Friðriksson

Örn Friðriksson, fyrrverandi varaforseti Alþýðusambands Íslands, lést á Landspítalanum Fossvogi 13. ágúst sl., 83 ára að aldri.

Örn fæddist 30. maí 1941 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðrún Margrét Árnadóttir húsmóðir og Friðrik Sigurðsson verkamaður.

Örn lauk sveinsprófi í vélvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík 1962 og stundaði tækninám í Leipzig og Karl Marx Stadt í Austur-Þýskalandi á árunum 1964-1965.

Hann stundaði sjómennsku hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur 1957-58 og vann vélvirkjastörf hjá Vélsmiðjunni Héðni með hléum frá 1958 til 1967. Þá starfaði hann við Búrfellsvirkjun sem vélvirki 1968-1969. Hann vann vélvirkja- og félagsmálastörf hjá Íslenska álfélaginu 1969-1989 og skrifstofustörf hjá Félagi járniðnaðarmanna frá 1989 þegar hann tók þar við formennsku.

Örn sat í stjórn Iðnnemasambands Íslands 1959-61, og var formaður síðasta árið. Hann var aðaltrúnaðarmaður starfsmanna ÍSAL 1971-89, ritari Félags járniðnaðarmanna 1974-75, varaformaður 1987-89 og formaður frá 1989 til 2006 og formaður Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna 2007-2008 en það félag varð til við sameiningu Félags járniðnaðarmanna og Vélstjórafélags Íslands. Hann var formaður Málm- og skipasmiðasambands Íslands 1988-92 og annar varaforseti ASÍ á sama tímabili. Hann sat í stjórn Norræna málmiðnaðarsambandsins 1989-98 og Iðntæknistofnunar Íslands um tíma frá 1989. Hann sat í bankaráði Íslandsbanka 1993-2000 og í stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins um tíma. Þá sat hann í stjórn Sálarrannsóknafélags Íslands 1980-1985 og var forseti félagsins 1984-85.

Örn ritaði ýmsar greinar í blöð og tímarit um verkalýðsmál og sálarrannsóknir.

Eiginkona Arnar var Ólöf Helgadóttir verkakona, hún lést 2008. Dætur þeirra eru Guðrún Valdís og Tinna. Sonur Ólafar og fóstursonur Arnar er Róbert Þór Gunnarsson.

Útför Arnar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði mánudaginn 26. ágúst klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert