„Grindavík er allavega ekki í hættu núna í þessu gosi,“ segir Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.
Hann segir gosið sem hófst austan Sýlingarfells fyrr í kvöld að mestu leyti mjög svipað og síðustu tvö gos á svæðinu fyrir utan þá staðreynd að gossprungan opnaðist lengra til norðurs.
„Þetta opnaðist á mjög svipuðum slóðum, austan við Sýlingarfell, og opnast svo til suðurs og norðurs en hélt lengra áfram til norðurs og meginhraunflæðið virðist vera einmitt þar, á norðurendanum á gossprungunni,“ segir Benedikt og bætir við:
„Það þýðir að jarðskorpan hafi verið veikust fyrir þarna og auðveldara fyrir kvikuna að fara til norðurs heldur en suðurs. Þetta er kannski því það er búið að fyllast meira í sprunguna til suðurs. Grindavík er allavega ekki í hættu núna í þessu gosi.“
Spurður hvað áhrif þetta hafi á hraunflæði úr sprungunni segir Benedikt:
„Það virðist hafa farið talsvert hraun norður fyrir Sýlingarfell og rennur til vesturs meðfram því [...] í áttina að Grindarvíkurvegi og svo virðist vera talsvert hraunflæði á norðurendanum á þessu.“
Þá telur Benedikt hraunflæði svipað og í síðustu gosum.
„Ég hugsa að það sé svipað. Það virðist hafa verið svipað hámarksflæði og í síðustu gosum en það mat er ekki áreiðanlegt ennþá. Upphafsfasinn er allavega ekki miklu stærri en hann var síðast og líklega ekki stærri,“ segir Benedikt.
Er þá líklegt að þróun gossins verði svipuð og hefur verið?
„Já ég held að það sé líklegast. Auðvitað getur það staðið lengur, við vitum það ekkert en miðið við hvernig þetta hefur hagað sér þá er ekkert sem bendir til þess að þetta sé að fara haga sér neitt mikið öðruvísi.“