Borgin endurnýjar þjónustusamninga

Reykjavíkurborg hefur endurnýjað samninga við Samtökin '78 og Fjölsmiðjuna.
Reykjavíkurborg hefur endurnýjað samninga við Samtökin '78 og Fjölsmiðjuna. mbl.is/Ómar

Reykjavíkurborg hefur endurnýjað samninga við Samtökin '78 og Fjölsmiðjuna. Borgarráð samþykkti þetta á síðasta fundi sínum að tillögu Einars Þorsteinssonar borgarstjóra.

Samningurinn við Samtökin '78 gildir til 31. maí 2025. Heildarkostnaður vegna samningsins er samtals krónur 8.905.400. Framlag Reykjavíkurborgar til Fjölsmiðjunnar nemur 7,2 milljónum króna á þessu ári.

Samningurinn við Samtökin '78 er um hinseginfræðslu og þjónustu við samkynhneigða, tvíkynhneigða, pankynhneigða, eikynhneigða, intersex og trans fólk, sameiginlega nefnt hinsegin fólk í samkomulaginu.

Hlutverk þjónustusalans, Samtakanna '78, er að skipuleggja og framkvæma fræðslufundi um hinsegin fólk og hinseginmálefni. Samtökin útbúi fræðsluefni með þeim hætti að það þjóni þörfum þeirra sem njóta fræðslunnar.

Samtökin skuldbinda sig til að veita starfsfólki í skóla- og frístundastarfi fræðslu sem er hluti af regnbogavottun Reykjavíkurborgar.

Fyrir börn og ungmenni

Grunnskólar í Reykjavík eru 43 talsins. Hvert fræðsluerindi skal að lágmarki vera tvær klukkustundir og eru greiddar 57.800 krónur fyrir hvert erindi. Þá skulu samtökin veita börnum og ungmennum í skóla- og frístundastarfi hinseginfræðslu einu sinni á ári. Fræðslan nái til barna í 6. og 9. bekk grunnskólans.

Loks skulu Samtökin '78 bjóða fram og veita fræðslu starfsfólki og sjálfboðaliðum félaga innan Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR).

Í samningnum kemur fram að markmið Samtakanna '78 sé að vinna að sýnileika og viðurkenningu hinsegin fólks og berjast fyrir því að það njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi. „Samtökin leitast við að breyta fordómum, hroka og andúð í garð hinsegin fólks í viðurkenningu, sátt og mannvirðingu,“ segir þar m.a.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert