Börn fái ekki að versla í Svens í Grímsbæ

„Það er ekkert sem er brýnt meira fyrir okkar starfsfólki en að selja ekki [undir] 18 ára,“ segir einn af eigendum nikótínverslunarinnar Svens.

For­eldra­fé­lög í skól­um í grennd við Gríms­bæ í Foss­vogi hafa lýst von­brigðum yfir áætlaðri komu nikó­tín­púðaversl­un­ar­inn­ar Svens í versl­un­ar­kjarn­ann við Bústaðaveg. Lýstu þau áhyggjum af nikótínneyslu barna og sögðu það borðleggjandi að markaðssetn­ing Svens beindist að ungu fólki.

„Svens er sérvöruverslun með nikótín, þannig að við seljum ekkert annað en það. Þannig að við getum ekkert selt neinum neina vöru sem er undir átján ára gamall,“ segir Kristján Ragnar Kristjánsson, eða Kristján Ra., einn af þremur eigendum Svens, en hann er gestur í nýjum þætti Dagmála á mbl.is.

Kristján þvertekur einnig fyrir að auglýsingum sé beint til barna en í viðtalinu fer hann um víðan völl þar sem hann telur margt vanta inn í umræðuna um nikótínpúðaneyslu barna – og í raun nikótínneyslu yfir höfuð. Í því samhengi nefnir hann að bæta þurfi forvarnir gegn nikótínneyslu.

Kristján Ragnar Kristjánsson, eða Kristján Ra. eins og hann er …
Kristján Ragnar Kristjánsson, eða Kristján Ra. eins og hann er kallaður, er gestur í nýjasta þætti Dagmála. mbl.is/María

Sven kærður vegna falsaðra skilríkja

Kristján bendir vissulega á að fyrirtækið hafi árið 2023 verið kært fyrir að selja nikótínpúða til drengs undir lögaldri. Drengurinn hafði þá sýnt starfsmanni fölsuð skilríki við kaupin.

„Það var ömurlegt,“ segir Kristján Ra.

Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála komst seinna að þeirri niðurstöðu að starfsmanni Svens hafi ekki verið skylt að sannreyna skilríkin.

Staðhæfir að börn muni ekki að versla við Svens í Grímsbæ

Kristján bendir á að nikótínpúðar fengust þegar í Grímsbæ áður en Svens byrjaði að opna þar.

Og Kristján hvetur foreldra sem eiga börn sem fikta með nikótín að athuga hvort Svens sé í rauninni sú verslun sem þau eru að versla við, „því ég get lofað þér því að það er ekki þannig,“ segir Kristján.

„Ég get næstum því staðfest að það [Svens] er líklega sá staður sem er hvað erfiðast fyrir einhvern sem er undir átján ára að kaupa þetta,“ bætir hann við. 

Þurfi að ræða forvarnir

„Ég get staðhæft að fólk undir átján ára er ekki að fara að versla í Svens í Grímsbæ. Ef ég væri sautján myndi ég frekar fara í matvörubúðina í sama kjarna, til þess að verða ekki fyrir niðurlægingunni,“ segir Kristján enn fremur.

„Ég held að þessi umræða þurfi að vera miklu meira um hvað við ætlum að gera í forvörnum og fræðslu. Umræðan hefur verið svolítið um hvað fólki finnst og hvað „hlýtur að vera“ en ekki hvaða vörur er verið að selja og hvernig á að fá forvarnir og fræðslu um þetta.“

Viðtalið í heild sinni er aðgengilegt áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert