„Þetta er bara kosningaloforð. Þeir eru byrjaðir að lofa milljörðum. Talandi um 16 milljarða á ári. Ríkissjóður er rekinn með gríðarlegum halla eins og við vitum og við erum að glíma hér við verstu efnahagsstjórn í heimi,“ segir formaður Flokk fólksins, Inga Sæland, um nýjan samgöngusáttmála sem var undirritaður í gær.
Segir formaðurinn ríkisstjórnina ekki vita hvort hún sé að koma eða fara.
„Nú eru þeir allmörgum árum seinna að átta sig á því að það þýðir ekki að ætla að fara að setja Miklubrautina í stokk því hvað ætti þá að gera við allar tugþúsundir bifreiða sem eru að reyna að koma sér til og frá vinnu og skóla. Nú eiga að koma göng,“ segir Inga.
„Þeir vita í rauninni næstum ekki neitt. Það er nú bara þannig. Ég segi að þetta sé eitt af þessum skálapartíum. Þetta er í þriðja sinn sem þeir eru að skrifa undir svona samgöngusáttmála og borgarstjórinn miðaði við 12 milljóna Parísarborg. Ég meina við erum 100.000 hérna í Reykjavík. Kannski eitthvað um 160.000 á öllu höfuðborgarsvæðinu, ég veit það ekki alveg,“ bætir formaðurinn við.
Rétt er að taka fram að samkvæmt tölum Hagstofunnar er íbúafjöldi í Reykjavíkurborg rúmlega 143.000 og íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu um 253.000.
Segir Inga að vandfundinn sé verri efnahagsstjórn þegar litið er til lýðræðis- og réttarríkja og að um sé að ræða enn eitt loforðið.
„Maður er eiginlega búin að fá upp í kok af innantómu blaðri og ég myndi gjarnan fara að sjá einhverjar raunverulegar aðgerðir. Aðgerðir til að taka utan um samfélag í sárum.“
Þá hefur hún litla sem enga trú á gildistíma sáttmálans, en hann er til 2040.
„Eigum við þá ekki að mæla það frekar að það verði kannski til 2500. Þeir eru að kortleggja okkur ansi oft langt fram í tímann og þeir verða ekki með nein völd lengur, þessir aðilar sem eru að skrifa undir sáttmálann. Þetta eru draumórar.“
Segir formaðurinn verkefnið rjúka langt fram úr kostnaðaráætlun og setur spurningarmerki við hvernig ríkið muni fjármagna verkefnið þegar ríkissjóður er rekinn með halla.
Aðspurð um umferðargjöld sem verða tekinn upp sem hluti af fjármögnum sáttmálans segir Inga að yfirvöld hafi ekki hugmynd um hvernig eigi að takast á við þau.
„Hvenær ætla þeir að byrja að rukka og hvernig ætla þeir að rukka? Hvar ætla þeir að rukka? Þeir vita ekki neitt. Þeir vita ekkert hvað þeir eru að fara út í. Það eru allskonar vangaveltur um hitt og þetta og það eina sem þeir vita er að þeir ætla að taka 16 milljarða á ári úr ríkissjóði,“ segir Inga en tekur jafnframt einnig fyrir þá ákvörðun að nota Keldnalandið sem útborgun borgarlínunnar.
„Þeir eru nýbúnir að gefa borginni Keldnalandið sem útborgun í þessa borgarlínu. Keldnalandið sem við áttum að vera að byggja upp hérna fyrir nýtt íbúðarhverfi hérna í Reykjavík og ríkisvaldið átti að taka ábyrgð á því að húsnæðismarkaðurinn væri ekki orðinn svona hrikalega mikill baggi á samfélaginu og efnahagsástandinu í landinu eins og raun ber vitni.“
Á kynningarfundi um samgönguáætlunina í gær kom fram að heildarkostnaður verkefnisins sé 311 milljarðar og verður kostnaðurinn á milli 14 og 19 milljarðar árlega. Þó ber að taka fram að sveitarfélögin munu fjármagna 12,5% sáttmálans með beinum framlögum. Ríkið mun fjármagna 87,5% og verður það fjármagn með beinum framlögum, ábata af sölu af Keldnalandi og tekjum af umferð eða með annarri fjármögnun.
„Þetta er nú farið að verða svolítið vel í lagt þannig ég hef illan bifur á þessu. Ég er algjörlega á móti því að þeir séu alltaf í sínum bergmálsdraumasvefni. Ég held að það sé kominn tími til þess að þeir fari að vinna að hag samfélagsins í heild sinni og hætta að reyna að stefna okkur í strætó hér, kafandi í snjó um hávetur og annað slíkt þegar við vildum frekar eiga val á því sjálf hvernig við hugum að okkar ferðamáta þegar við erum að ferðast innan borgarinnar,“ segir formaðurinn að lokum.