Heldur færri jarðskjálftar hafa mælst við kvikuganginn á Sundhnúkagígaröðinni en undanfarna daga.
„Það hafa ekki orðið miklar breytingar. Örlítið færri skjálftar hafa mælst en hvassviðri á staðnum kann að hafa áhrif á mælana,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Síðasta sólarhring mældust um 50 skjálftar á svæðinu en að sögn Sigríðar mælist ekki neinn gosórói á svæðinu.