Atli Steinn Guðmundsson
„Þetta er í raun og veru bara endurtekið efni og það sem talið var líklegast, að gosið byrjaði þarna suðaustan við Stóra-Skógfell á þessum fimm hundruð metra langa sprungubút sem öll hin gosin hafa byrjað á, nema þetta sem byrjaði 14. janúar.“
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um nýhafið gos á Reykjanesskaga og bætir því við að gossprungan hafi lengst í báða enda vegna aukinnar framleiðni kviku.
„Þegar fer að draga úr upphafsgosinu fer það líklega í einn eða tvo gíga eins og fyrri gos og svo malla þeir gígar eitthvað áfram með hraunframleiðni. Gosið er á besta stað, hann er mjög ákjósanlegur, hraunið flæðir í átt að Stóra-Skógfelli og Grindavíkurvegi eins og í fyrri gosum,“ heldur prófessorinn áfram.
Aðspurður segir hann vandasamt að spá fyrir um hve lengi nýja gosið standi. „Ég myndi halda að þetta verði svipuð lengd og síðast, þessi upphafsfasi verði kannski þrír til sex tímar og svo fer að draga verulega úr gosinu og virknin að draga sig saman á ákveðna hluta gossprungunnar og þar verður frumframleiðni í einhvern tíma. Við sjáum bara hvað gerist þarna,“ segir Þorvaldur Þórðarson að lokum.