Haltrar um í skemmtiskokki en ætlar í mark

Guðrún situr á steini heima í Grafarvogi og heldur hér …
Guðrún situr á steini heima í Grafarvogi og heldur hér fast um snúinn og bólginn vinstri fótinn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég varð að breyta fyrirætlunum úr því svona illa fór,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir, nýkjörinn biskup Íslands. Hún er ein þúsunda sem skráð hafa sig til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni næsta laugardag og ætlaði sér þar að hlaupa 21 kílómetra.

Fyrir tveimur vikum, þegar Guðrún var í utanvegahlaupi nærri Reykjavík, missteig hún sig eða hnaut á vinstri fæti svo hún haltrar um og er ekki hlaupafær. Því eru góð ráð dýr. Má hér raunar minna á orðatiltækið um að enginn verði óbarinn biskup. Slíkt þýðir að enginn kemst til æðstu metorða án hindrana og þess að heltast einhvern tíma á langri vegferð.

Hleypur fyrir Skjólið

Guðrún ætlaði sér að hlaupa og safna áheitum fyrir Skjólið, sem er athvarf fyrir heimilislausar konur. Starfsemi þess er til húsa í Grensáskirkju í Reykjavík, starfrækt af Hjálparstarfi kirkjunnar. Fimm manns ætla að hlaupa fyrir Skjólið og sjálf var Guðrún búin að safna rúmlega 100 þús. kr. í áheit.

„Starfsemi Skjólsins er þörf og mikilvægt að hún nái að dafna. Þess vegna valdi ég að hlaupa í þágu þessa málstaðar,“ áréttar Guðrún, sem í stað hálfmaraþons ætlar á laugardaginn að taka skemmtiskokkið sem er ýmist 3,0 eða 1,7 kílómetrar.

„Ég geng eða haltra; að minnsta kosti ætla ég í mark. Ætla væntanlega að taka annað barnabarnið með mér og gera úr þessu skemmtilega fjölskyldustund. Mest um vert er að ætla sér ekki um of,“ segir nýkjörinn biskup sem ætlar sér að hafa sigrast á eymslum þessum hinn 1. september, en þá verður hún vígð og sett inn í embætti við athöfn sem verður í Hallgrímskirkju.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert