Heildarúttekt verður gerð á Brákarborg

Torf fjarlægt af þaki leikskólans Brákarborgar.
Torf fjarlægt af þaki leikskólans Brákarborgar. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag tillögu Einars Þorsteinssonar borgarstjóra um að Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar verði falið að ráðast í heildarúttekt á ferlinu í kringum byggingu leikskólans Brákarborgar við Kleppsveg í ljósi mögulegra hönnunar- og/eða framkvæmdagalla.

Í því felist heildarúttekt á hönnun, framkvæmdum og eftirliti við framkvæmdir leikskólans. Einnig er óskað eftir því að Innri endurskoðun og ráðgjöf geri tillögur að umbótum í tengslum við ferlið.

Fram kemur í greinargerð með tillögunni að leikskólinn Brákarborg hafi verið opnaður á nýjum stað 2022 í endurgerðu húsnæði. Umhverfis- og skipulagssvið ákvað að fara í ítarlega skoðun á burðarvirki Brákarborgar í kjölfar ábendingar starfsfólks. Í ljós kom að reiknað álag frá ásteypulagi og torfi á þakinu væri meira en tilgreint var á teikningum. Því sé ljóst að mistök voru gerð í hönnun og/eða framkvæmd við Brákarborg. Reykjavíkurborg hafi þegar sent öllum verktökum og ráðgjöfum sem komu að verkinu formlegt bréf þar sem tilkynnt er um mögulega hönnunar- og eða framkvæmdagalla og að skoðað verði hvar ábyrgðin liggi. 

Hneyksli og dómgreindarleysi

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins lét bóka á fundi borgarráðs að mál Brákarborgar sé hneyksli og beri vott um dómgreindarleysi fólks sem gefur sig út fyrir að vera sérfræðingar á sviðinu. „Nú vill meirihlutinn að Innri endurskoðun og ráðgjöf rannsaki málið en Flokkur fólksins telur að finna þurfi aðila ótengdan borgarkerfinu til að kryfja þetta mál ef finna á út hver ber ábyrgðina. Meirihlutinn, ekki síst sá síðasti, hefur verið gapandi yfir ótrúlegustu hlutum og látið plata sig upp úr skónum. Hver man ekki eftir verkinu Pálmatré eða dönsku stráunum? Það eru eiginlega engin takmörk fyrir hvað valdhafar borgarinnar hafa látið temja sig út í mikla vitleysu á kostnað borgarbúa,“ segir m.a. í bókuninni.

Loka þurfti leikskólanum Brákarborg vegna galla við hönnun eða byggingu …
Loka þurfti leikskólanum Brákarborg vegna galla við hönnun eða byggingu skólans. Ljósmynd/Reykjavíkurborg


Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar lögðu fram gagnbókun þar sem segir að Reykjavík eigi stærsta fasteignasafn landsins og framkvæmdir sem þeim tengist skipti hundruðum á hverju ári.

„Brákarborg er verulegt frávik sem kallar á ítarlega rannsókn. Málið er alvarlegt en starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs og skóla- og frístundasviðs tók það strax föstum tökum, tryggði börnunum áframhaldandi leikskólavist og ráðist var strax í framkvæmdir á húsnæðinu. Tillagan kveður á um að Innri endurskoðun og ráðgjöf geri heildarúttekt á ferlinu í ljósi mögulegra hönnunar- og/eða framkvæmdagalla. Þetta er hins vegar ekki staður og stund til að vera með sleggjudóma, dónaskap, ýkjur og upphrópanir. Sérstaklega frábiður meirihlutinn sér ærumeiðingar sem beinast að starfsfólki borgarinnar. Höldum okkur við staðreyndir og vinnum faglega í þágu borgarbúa,“ segir síðan. 

Fundargerð borgarráðs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka