Ármann Höskuldsson jarðvísindafræðingur segir klassískt að gosin komi öll upp á sama stað við Sundhnúkagígaröðina. Gosið sem hófst í kvöld er á svipuðum stað og fyrri gos og segir Ármann að aðal gosrásin liggi á milli Hagafells og Stóra-Skógfells.
Hann segir að eins og er sé staðan nokkuð góð varðandi hraunrennsli og innviði á svæðinu.
„Þau koma alltaf upp á sama stað í byrjun sem segir okkur í raun hvar viðkvæmasti bletturinn er. Svo teygja þau sig ýmist til norðurs eða suðurs og nú er sprungan að fara til norðurs,“ segir hann.
Gosin eiga það sameiginlegt að vera algjörlega á flekamótum, að sögn Ármanns, það er að segja að austan við gossprunguna er Evrasía og vestan við hana er það sem Ármann kallar „einskismanns land,“ því Ameríka byrjar ekki fyrr en uppi á Sandfellshæð.
„Og svo af því við erum að rífa skorpuna í sundur þá fara þau eins og blævængur til suðurs eða norður. Flest hafa farið til suðurs, nú á síðustu 40-50 mínútum er hún að sækja til norðurs,“ bætir hann við.
Fyrsta gosið, í röð eldgosanna á Sundhnúkagígsröðinni, fór mjög langt til norðurs. Síðan þá hefur ekkert sambærilegt gerst fyrr en núna, því þetta gos eltir til norðurs ekki til suðurs.
Ármann lýsir tilhneigingu hraunrennslisins. Áður hefur það farið fyrst og fremst til austurs því það er háð hallanum í landslaginu. En nú þegar sprungan teygir sig til norðurs þá byrjar hraun að renna til vesturs.
„Kosturinn við það er að þá rennur það á svæði þar sem hraun hefur ekki runnið áður. Þar sem hraunið var síðast þar er kominn hár kantur og núna fer það í dældina þannig það eru mjög litlar líkur að eitthvað gerist hjá Svartsengi og Bláa Lóninu,“ segir hann.
Hraunið sem nú er á leið til vesturs fer væntanlega yfir Grindavíkurveg og það gæti farið yfir heitavatnslögnina sem liggur út að Reykjanesbæ, að sögn Ármanns. Rétt er að taka fram að Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, sagði fyrr í kvöld að lögnin væri komin í jörð á 750 metra kafla þar sem landið liggur lægst og telur hann lögnina vel varða.
Hann stillir því upp þannig að því lengra sem sprungan kemst norður því meira hraun sendi hún til vesturs. Fyrsta sólarhringinn mun hraunið ekki koma nálægt varnargörðunum. Ármann segir það leita í dældina sem er norðanmegin og aftur yfir Grindavíkurveg og þar með ógna heita- og kaldavatnsæðinni.
„Þetta er jákvætt“, segir hann. Því það kemur ekki til með að mæða mikið á varnargörðunum eins og staðan er nú. Hraunið eltir landslagið sem var búið til í síðasta gosi og fer í dældirnar. Einhver möguleiki er á að þunnar tungur komi upp að görðunum við Svartsengi og að reynt geti á varnargarðana uppi á Hagafelli seinnipartinn á morgun.
„Eins og staðan er, þá erum við í frekar góðum málum.“