„Við erum auðvitað bara óskaplega slegin yfir þessum hörmulegu atburðum sem hafa átt sér stað í þessari viku,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð.
Þegar mbl.is náði af honum tali var hann á leið frá Reyðarfirði yfir til Norðfjarðar til að sækja minningarstund vegna hörmulegs slyss sem átti sér stað við Hálslón fyrr í vikunni.
Annað áfall dundi yfir Neskaupstað í dag þegar hjón fundust látin í heimahúsi, en þau höfðu búið í bænum um langa hríð. Áður hafði verið greint frá lögregluaðgerð miðsvæðis í Reykjavík. Staðfest er að lögregluaðgerðin tengist málinu og var einn handtekinn.
Jón segir að atburður sem þessi snerti ekki einungis Norðfirðinga, heldur alla landsmenn. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar kom saman klukkan fjögur síðdegis, á fyrsta fundi eftir sumarfrí, og flutti Jón kveðju bæjarstjórnar til allra íbúa.
Hann segir að fyrst og fremst verði að halda utan um þá sem eiga um sárt að binda og sýna þeim sem þurfa væntumþykju stuðning. Sveitarfélagið mun leggja sitt af mörkum til að koma að málum eins og það getur.
Hvetur hann íbúa til að standa saman á þessum tímum.