Lykilatriði að jafn mikið fari í stofnvegi og borgarlínu

Þórunn Sveinbjarnadóttir, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir flokkinn ekki á móti …
Þórunn Sveinbjarnadóttir, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir flokkinn ekki á móti umferðargjöldum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir flokkinn fagna því að loksins sé búið að uppfæra samgöngusáttmálann fyrir höfuðborgarsvæðið. Segir hún að verið sé að stíga mikilvæg skref sem eru í samræmi við þá kröfu sem Samfylkinginn gerir um framfarir í samgöngumálum og hafa kynnt opinberlega.

„Í mínum huga skiptir mjög miklu máli að það sé samstaða á milli allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um þessa uppfærslu og ekki síður að ríkið skuldbindi sig til að stíga sterkar inn meðal annars með þátttöku í rekstri almenningssamgangna. Það er krafa sem að hefur verið uppi mjög lengi og mikilvægt að svara,“ segir Þórunn.

Framkvæmdir mikilvægar vegna fólksfjölgunar

Segir hún þá Samfylkingunna einnig fagna því að fyrsti áfangi borgarlínunnar sé í höfn og tilbúinn til framkvæmda. Þar verði einnig Fossvogsbrúin, á meðal annarra framkvæmda, mjög mikilvæg fyrir íbúa í suðurhluta þess kjördæmis auk annarra sem munu nýta sér samgöngubótina.

„Ég held að það sé mikilvægt að benda á að í sáttmálanum þá er jafnmikið varið til vegaframkvæmda og framkvæmda við borgarlínu. Ég held að það sé lykilatriði í þessari breiðu sátt um þennan sáttmála að það sé þetta jafnvægi auk þess er mjög gleðilegt að sjá aukna áherslu á göngu- og hjólastíga,“ segir Þórunn og bætir við.

„Það er, eins og við vitum sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu, sífellt fleiri sem að nýta sér þann samgöngumáta og eftir því sem að hann batnar þá verður auðveldara að nota hann. Það sama má auðvitað segja um almenningssamgöngur með sérstakri borgarlínu sem að tefst ekki af annarri umferð og er með aukinni tíðni strætisvagnaferða.“

Segir Þórunn það skipta miklu máli að ráðist verði í framkvæmdir, þá sérstaklega vegna þeirrar miklu fólksfjölgunar sem hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár en þar að leiðandi hefur einnig orðið fjölgun á einkabílum.

„Það þarf auðvitað að mæta þessu með því að fjölga valkostum og stýra umferð og samgöngum eins og hægt er.“

Ábatinn af samgöngubótum verði mikill

Mikið hefur verið rætt kostnað sáttmálans og sérstaklega þá miklu hækkun sem sjá má á kostnaðaráætlun en er talið núna að heildarkostnaður verði 311 milljarðar.

Eru engar áhyggjur um að kostnaðaráætlun sáttmálans hækki enn frekar með komandi árum?

„Að sjálfsögðu skiptir kostnaðurinn við þessa miklu innviðauppbyggingu miklu máli en ég ætla líka að benda á það að ábatinn af henni er mjög mikill fyrir samfélagið. Það er búið að lengja í sáttmálanum framkvæmdatímann. Það er verið að lofa auknum fjárfestingum og það er í samræmi við stefnu okkar í Samfylkingunni að þess þurfi, ekki bara til þess að vinna upp innviðaskuldina heldur einnig til að búa í haginn fyrir framtíðina og mæta þeim kröfum sem að uppi eru.“

Nefnir Þórunn að oft sé ekki búið að rýna í framkvæmdakostnað fyrstu hugmynda um samgöngubætur. Hafi það sést í stórum framkvæmdum um land allt að oft verði hækkun á milli upphaflegrar hugmyndar og hinnar endanlegu útgáfu.

„Ég ætla líka að bæði benda á að það er hátt vaxtarstig og mikil verðbólga í landinu. Það hefur líka áhrif á þessar fjárfestingar fyrir ríki og sveitarfélög eins og bara fyrir venjulegt fólk. Þannig ég ætla ekki að gera lítið úr þessari hækkun en ég ætla að leggja fyrst og fremst áherslu á það að við verðum að fjárfesta sem samfélag í þessum samgöngubótum. Það er kominn tími á þær og ábatinn af þeim verður mikill,“ segir varaformaðurinn.

Samfylkingin fagnar hinum nýja samgöngusáttmála.
Samfylkingin fagnar hinum nýja samgöngusáttmála. mbl.is/Hari

Vonast til að sjá umferðargjöld á dagskrá Alþingis

Einhverjar spurningar hafa vaknað um fjármögnun sáttmálans en ríkið mun fjármagna 87,5% af verkefninu. Verður það gert með beinum framlögum, ábata af sölu af Keldnalandi og tekjum úr umferð eða með annarri fjármögnun.

Segir Þórunn að enn sé að nokkur bið á því að ríkisstjórnin komi sér saman um umferðargjöldin.

„Mér skilst að þau séu enn óútfærð. Ég á nú von á því, eða ég vona allavega, að innviðaráðherra komi þeim á dagskrá þingsins núna í vetur svo að það sé að minnsta kosti hægt að taka um þau pólitíska umræðu og sjá hvað stjórnin er að hugsa í því máli,“ segir Þórunn.

Nefnir hún að Samfylkingin hafi ekki sett sig í prinsippi á móti umferðargjöldum. Hins vegar telji flokkurinn að útfærslur þeirra séu mjög mikilvægar og að vinna þurfi gegn þeirri gríðarlegu umferð sem myndast getur á álagstímum.

„Það hefur verið gert í nágrannalöndum okkar með þessum hætti með ágætum árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert