Ráðleggur fólki að klæða sig vel á Menningarnótt

Það er mikilvægt að klæða sig vel fyrir menningarnótt.
Það er mikilvægt að klæða sig vel fyrir menningarnótt. Mbl.is/Haraldur Jónasson

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, ráðleggur fólki sem ætlar á Menningarnótt að klæða sig vel og hafa með sér vettlinga og húfu. 

Að sögn Þorsteins verður þokkalega bjart veður um daginn á meðan hlaupinu stendur en að það fari kólnandi um kvöldið.

„Það verður þokkalega bjart veður, hálfskýjað og bjart með köflum. Fínasta veður þannig lagað séð. Hitinn fer samt ekki mikið yfir 10 eða 11 stig þegar best lætur,“ segir Þorsteinn. 

„Hitinn er svolítið að falla um kvöldið, hann dettur fljótt niður í 5 eða 6 stig,“ bætir hann við.

Það hefur oft verið hlýrra veður þegar Reykjavíkurmaraþonið fer fram. …
Það hefur oft verið hlýrra veður þegar Reykjavíkurmaraþonið fer fram. Hlauparar geta einnig búist við norðanátt á Sæbrautinni og út á Seltjarnarnesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins gott og mætti búast við 

„Það verður ákveðin norðanátt, í kringum 5-10 metrar á sekúndu. Það gæti verið svolítið hvasst við Sæbrautina og út á Seltjarnarnesi,“ segir hann um það hvað maraþonhlauparar mega búast við í hlaupinu.

„Það mun þó eitthvað draga úr vindi þegar það líður á daginn, en það mun samt ekki alveg lygna það verður áfram einhver gola um kvöldið,“ segir Þorsteinn og útskýrir að þetta sé eins gott veður og mætti búast við svona seint á sumrinu. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert