Rannsaka hvort og þá hvaða vopni var beitt

Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir í samtali við mbl.is að rannsókn morðmálsins í Neskaupstað beinist m.a. að því hvort og þá hvaða vopni hafi verið beitt við verknaðinn.  

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi var lögreglu gert viðvart um tvo látna einstaklinga í Neskaupstað í dag kl. 12:35. Um íbúa í húsinu var að ræða, hjón á áttræðisaldri. Aðstæður á vettvangi bentu til saknæms athæfis. 

Grunur beindist að einstaklingi sem var handtekinn um kl. 14:00 í dag, á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að gæsluvarðhalds verði krafist yfir honum. 

Kristján segir að grunurinn beinist aðeins að þessum eina einstaklingi og að ekki er talið að fleiri hafi komið að verknaðinum.  

Hugsanleg tengsl rannsökuð

Fram hefur komið að grunaði og hin látnu hafi ekki tengst fjölskylduböndum. Aðspurður segir Kristján að verið sé að skoða hugsanleg önnur tengsl þeirra á milli, en að rannsókn muni leiða það í ljós. 

Kristján segist ekki tilbúinn að greina frá því að svo stöddu hvort hugsanleg vitni séu í málinu, þar sem rannsókn þess er á viðkvæmu stigi.

Við eftirgrennslan og handtöku grunaðs naut lögreglan á Austurlandi aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurlandi og Suðurnesjum auk sérsveitar ríkislögreglustjóra og þyrlusveitar Landhelgisgæslu. Aðstoð var og veitt í kjölfar atburðarins frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Vettvangsrannsókn á heimili hjónanna

Vettvangsrannsókn er í gangi og snýr að húsnæðinu sem var heimili hjónanna. Lögreglan nýtur þar aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og réttarmeinafræðings. 

Verið er að skoða ferðir hins grunaða áður en hann var handtekinn í bænum.

Á þessum tímapunkti er ekki hægt að segja til um hvort viðkomandi hafi verið undir áhrifum fíkniefna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert