Rennslið nokkuð jafnt í Skaftá

Skaftá.
Skaftá. mbl.is/Jónas Erlendsson

Rennslið í Skaftá hefur verið nokkuð jafnt í nótt að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Vatnsrennslið hækkaði eitthvað örlítið í Skaftá í gærkvöld en svo minnkaði það aftur. Það hafa orðið litlar breytingar en flóðið er enn þá í gangi og er að haga sér eins og við var búist,“ segir Sigríður við mbl.is.

Gögn gefa mögulega til kynna að upptök hlaupsins séu í Vestari-Skaftárkatli en Sigríður segir að ekki sé búið að staðfesta úr hvorum katlinum hlaupið komi. Hún segir að Veðurstofan muni fylgjast grannt með vexti hlaupsins.

Síðast hljóp úr katlinum í september 2021 en hlaupin úr vestari katlinum eru að jafnaði minni en hlaupin úr þeim eystri.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi lýsti í gær yfir óvissustigi almannavarna vegna Skaftárhlaups.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert