Skora á flugfélög að neita að flytja Yazan úr landi

No Borders árétta í yfirlýsingu að allir sem taki þátt …
No Borders árétta í yfirlýsingu að allir sem taki þátt í brottvísuninni séu meðsekir. Samsett mynd/Kristinn Magnússon/Aðsend

Samtökin No Borders Iceland skora á öll starfandi flugfélög á Íslandi að neita því að flytja Yazan Tamimi úr landi. 

Í yfirlýsingu árétta samtökin að allir sem taki þátt í brottvísun Yazan, hvort sem það er lögreglufólk eða starfsmenn flugfélaga séu „jafn meðsek í því ódæðisverki og sjálfir ráðamenn“. Hver og einn einstaklingur hafi val um að gera það sem rétt sé.

„Ekkert flugfélag sem státar sig af samfélagslegri ábyrgð ætti að sætta sig við það að framkvæma illvirki á borð við það að senda langveikt og dauðvona barn úr landi og á götuna á Spáni þar sem það verður, án dvalarleyfis og læknisþjónustu.“

30% deyi í kjölfar falls eða hnjasks

Mál Yazans hefur verið mikið til umfjöllunar að undanförnu eftir að ákveðið var að vísa honum úr landi. Yazan er ellefu ára gamall og flúði til landsins frá Palestínu með foreldrum sínum. Hann er greindur með ágenga og alvarlega vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne, en lífslíkur þeirra sem ekki fá meðferð við sjúkdómnum eru um 19 ár.

Hefur mörgum blöskrað brottvísun hans og þótt hún ómannúðleg sökum eðli sjúkdóms hans en læknar Yazans hafa ítrekað að allt rask á þjónustu við hann geti reynst lífshættulegt. Bara það eitt að fara í flugvél stefni honum í mikla hættu. 

„Það er líka ljóst að verði rof á þessari þjónustu getur það verið lífshættulegt og stytt hans ævi. Benda má á að 30% drengja með Duchenne-vöðvarýrnun deyja í kjölfarið á falli eða hnjaski,” segir í læknisvottorði Yazan.

Fagfélög á borð við ÖBÍ, Þroskahjálp, Einstök börn og Duchenne samtökin hafa fordæmt brotvísunina.

„Við hvetjum öll flugfélög til þess að velja mannúð og samfélagslega ábyrgð og vonum að bæði lögreglan og stjórnvöld sjái sóma sinn í að gera það líka, jafnvel þótt það væri ekki af fyrra bragði,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert