Sýna 440 ára gamlan dýrgrip

Kristján Þórðarson, stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi með Guðbrandsbiblíuna fágætu í …
Kristján Þórðarson, stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi með Guðbrandsbiblíuna fágætu í hönd. mbl.is/Eyþór Árnason

Rúm öld er liðin síðan Gunnlaugur Einarsson læknir færði frímúrarastúkunni Eddu í Reykjavík bók að gjöf í von um að hún yrði til allrar framtíðar varðveitt í fórum stúkunnar. Bókin er engin smásmíði, í svokölluðu fólíó-broti sem samsvarar því sem næst arkarstærðinni A3 eins og við nútímafólk könnumst glögglega við.

En bók þessi er ekki aðeins stór. Hún er einnig gríðarlega fágæt. Gjöfin var nefnilega eintak af Guðbrandsbiblíu, sem prentuð var á Hólum í Hjaltadal árið 1584 og síðar kennd við biskupinn sem stóð að verkinu, Guðbrand Þorláksson.

Þessi merka bók kemur nær aldrei fyrir almenningssjónir en breyting verður á því næstkomandi laugardag. Þá hyggst Frímúrarareglan á Íslandi opna húsakynni sín fyrir gestum og gangandi. Það er gríðarmikil bygging við Bríetartún, skammt aftan við lögreglustöðina við Hlemm.

Kristján Þórðarson augnlæknir er stórmeistari Reglunnar og þegar Morgunblaðið náði tali af honum var hann ásamt fleirum í óðaönn við undirbúning opna hússins sem standa mun milli 11:00 og 15:00 á menningarnótt.

Biblían er í nútímabandi og segir Sveinbjörn Blöndal, helsti sérfræðingur …
Biblían er í nútímabandi og segir Sveinbjörn Blöndal, helsti sérfræðingur landsins í Guðbrandsbiblíunni, segir bandið það glæsilegasta af öllum sem hann þekki í nútímabandi. mbl.is/Eyþór Árnason

Sögusýning á laugardag

„Hér erum við að setja upp mikla sýningu sem nefnist Frimúrarareglan söfn og saga. Þar fæst ákveðið yfirlit yfir sögu frímúrarastarfs á Íslandi og útbreiðslu þess, fjallað um söfnin sem starfrækt eru á vettvangi hennar og hér sýnum við marga merkilega gripi sem eru í eigu reglunnar,“ útskýrir Kristján.

Mitt á meðal gripanna er þessi merka bók sem á sér svo langa sögu. Raunar telur Sveinbjörn Blöndal, sem mesta þekkingu hefur á Guðbrandsbiblíu, að enn séu um 100 eintök til af Biblíunni og að minnihluti þeirra sé varðveittur hér á landi. Þá eru eintökin í afar misgóðu ástandi. Upphaflega voru 500 eintök prentuð og því ljóst að 80% þeirra hafa orðið tímans tönn að bráð.

Eintakið sem Gunnlaugur færði Reglunni er vel varðveitt, en það er annað sem gerir það einstakt í hópi Guðbrandsbiblía. Kristján útskýrir hvað veldur.

„Á titilsíðu þessa eintaks er að finna áritun Guðbrands biskups. Enn eru nokkur eintök til sem bera áritun hans, en þessi er sögð einstök fyrir þá staðreynd að hún er mjög persónuleg. Hún varpar ljósi á það hver þáði þetta eintak úr höndum biskups fyrir meira en fjórum öldum síðan.“

Titilblað Biblíunnar er afar heillegt. Þar má sjá neðarlega á …
Titilblað Biblíunnar er afar heillegt. Þar má sjá neðarlega á spássíðu áritun Guðbrands biskups til vinar síns, Gunnars Gíslasonar. mbl.is/Eyþór Árnason

Gjöf til Gunnars Gíslasonar

Þar vísar Kristján til manns að nafni Gunnar Gíslason. Hann hafði verið staðarhaldari á Hólum þegar Guðbrandur kom til stólsins árið 1571.

Í áletruninni, sem er nokkuð máð segir: „Heiðursamlegum, frómum og guðhræddum manni, Gunnari Gíslasyni, mínum góða vin í drottni, hef eg þessa Biblíu gefið og fengið til einnar ævinlegrar minningar, biðjandi guð drottin að hans nafni verði til lofs og dýrðar en áðurnefndum góðum vin til gagns og [...] viðurkenningar í drottni.“

Biblían er ekki í upprunalegu bandi og hefur það sennilega verið mjög slitið þegar það komst í eigu Frímúrarareglunnar. Það varð til þess að hinn merki bókbindari Ársæll Árnason batt hana inn í glæsilegt band sem er fagurlega skreytt, meðal annars gulli. Nýverið var haft eftir Sveinbirni Blöndal að bandið væri einstakt og „glæsilegra en á nokkru öðru eintaki af Guðbrandsbiblíunni í nútímabandi“.

Mannræktarstarf

Kristján segir Frímúrararegluna taka varðveisluhlutverk sitt mjög alvarlega og að hún geri sér glögglega grein fyrir því hvers konar dýrgrip henni hefur verið trúað fyrir.

„Frímúrarareglan varðveitir Biblíuna og marga aðra merka gripi. En hún varðveitir líka mannræktarstarf sem mótast hefur af hefðum og þekkingu sem teygir sig margar aldir aftur í tímann. Hún gerir það með því að veita bræðrum, en það köllum við félaga hennar, hlutdeild í þessu,“ segir Kristján.

Hann segir mjög ánægjulegt að opna húsakynni reglunnar nú á Menningarnótt. Allir séu velkomnir og þar verði margt fróðlegt að sjá og fræðast um.

„Þótt leynd hvíli yfir fundasiðum okkar þá er saga okkar opinber og hingað kemur í hús fjöldi fólks á hverju ári sem ekki er félagar í Reglunni. Það á til dæmis við um jólaböll sem við höldum á hverju ári fyrir börn sem tengjast Reglunni með einum eða öðrum hætti. Það eru hátíðarstundir sem fólk á minningar um og heldur mjög upp á.“

Guðbrandsbiblía var prentuð á Hólum í Hjaltadal árið 1584 undir …
Guðbrandsbiblía var prentuð á Hólum í Hjaltadal árið 1584 undir forystu Guðbrands biskups Þorlákssonar. Á myndinni má sjárústir íbúðarhúss, sem talið er að hann hafi látið reisa á Hólum í Hjaltadal 1587, þremur árum eftir útkomu stórvirkisins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einstök mynd eftir Kjarval

Meðal þeirra gripa sem til sýnis verða á laugardag er einstakt málverk eftir Jóhannes Kjarval. Frímúrarareglan fékk verkið að gjöf fyrir nokkrum árum. Það var gjöf listamannsins til Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands. Þeir voru báðir félagar í Frímúrarareglunni og Sveinn var raunar fyrsti stórmeistari hennar þegar hún öðlaðist sjálfstæði frá dönsku frímúrarareglunni árið 1951.

Verkið nefnist Frímúrarateningurinn. Kristján segir að rannsókn hafi leitt í ljós að Kjarval hafi sent Sveini málverkið að gjöf í kjölfar embættistöku þess síðarnefnda á Þingvöllum 1944.

„Verkið er táknrænt og talar mjög sterkt til okkar sem störfum á vettvangi Frímúrarareglunnar. Það verður gaman að sýna almenningi það núna á laugardaginn og fylgjast með viðbrögðum fólks,“ segir Kristján.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert