Tæplega 40 smærri lekar komu upp í dreifikerfi Veitna í gær og í nótt eftir að heitu vatni var aftur hleypt á stóran hluta höfuðborgarsvæðisins.
Lekarnir komu upp á afmörkuðum, litlum svæðum, að því er kemur fram í tilkynningu.
Bráðabirgðaviðgerð var unnin á öllum stöðum og getur það orsakað aðeins minni þrýsting á vatninu en fullnaðarviðgerðir verða kláraðar í dag og á morgun. Á meðan þær standa yfir þarf að loka fyrir vatnið á þessum stöðum en það ætti ekki að vera nema í um eina klukkustund.
mbl.is greindi frá því í gær að meðal annars hefði komið upp talverður leki þegar lögn gaf sig við Fjallalind í Kópavogi, en þar streymdi heitt vatn að tveimur húsum og undir pall og garðhýsi.
Stærsti lekinn sem um ræðir varð við Nýbýlaveg í Kópavogi og er viðgerð áætluð í kvöld. Tilkynnt verður um hana sérstaklega til íbúa í nágrenninu.